„Þetta var mjög gjöfult grínár“

Sigurjón Kjartansson og Eiður Birgisson á tökustað í leikhúsinu við Sigtún. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Tökum á Áramótaskaupinu lýkur í þessari viku en það er kvikmyndafyrirtækið S800 á Selfossi sem framleiðir Skaupið að þessu sinni.

Tökulið Skaupsins var á heimavelli á Selfossi í gær og tyllti sunnlenska.is sér niður með Selfyssingunum Sigurjóni Kjartanssyni og Eið Birgissyni, sem framleiða Skaupið ásamt Hirti Grétarssyni.

Skrifum helmingi meira en við tökum upp 
„Þetta er búið að ganga framar vonum síðustu daga, ekki spurning. Við erum með mjög fókuseraðan leikstjóra, Dóru Jóhannsdóttur, sem er hámenntuð í gríni og veit alltaf nákvæmlega hvernig á að ná fram fyndinu á hárréttum tímum,“ segir Sigurjón, en auk þess að framleiða er hann einn handritshöfunda og leikaranna í Skaupinu.

„Þetta var mjög gjöfult grínár. Við byrjuðum að skrifa í ágúst og fórum mjög vísindalega í gegn um þetta. Það er skemmst frá því að segja að við skrifuðum örugglega helmingi meira heldur en við tökum upp,“ segir Sigurjón og Eiður bætir við að þeir hafi mjög góða tilfinningu fyrir þættinum á gamlárskvöld.

„Eins og Sigurjón segir þá var magnið mikið og það voru margir góðir sketsar sem voru skrifaðir en komust ekki í Skaupið, þannig að það situr bara það allra besta eftir. Svo erum við með frábæra leikara, hér er valinn maður í hverju rúmi,“ segir Eiður.

Selfoss auðvitað efst á blaði
Sem fyrr segir er S800 starfrækt á Selfossi en það var þó ekki sjálfgefið að tökur færu að einhverju leiti á bökkum Ölfusár. „Það var hins vegar mjög ánægjulegt fyrir okkur. Við neyddumst til þess að fara út úr borginni til þess að komast í tökur inni á spítala. Það er ekki svo auðvelt í Reykjavík, þannig að við þurftum að fara út á land og Selfoss var auðvitað efst á blaði,“ segir Eiður og Sigurjón tekur undir þetta.

„Það var viss hvati að koma hingað. Ég kann mjög vel við mig á Selfossi, þetta er stórkostlegur bær og þess má geta að ég erfði 800 nafnið af Eiði,“ segir Sigurjón. „Hann var kallaður Eiður800 í bransanum mjög lengi, svo hefur hann nú ekki búið hér í nokkur ár, en við getum svosem sameinast um nafnið…“

„…við gerum það að einhverju leiti,“ skýtur Eiður inn í. „En einhver þarf að hafa auga með bænum og taka við titlinum og Sigurjón fékk hann afhentan um það leiti sem hann flutti hingað. Það er engin eftirsjá hjá mér, Sigurjón ber titilinn með sóma.“

„Og ég stofnaði svo auðvitað fyrir fyrirtæki sem ber þetta nafn, S800,“ bætir Sigurjón stoltur við.

Ekkert stress á gamlárskvöld
Áramótaskaupið 2022 er fyrsta verkefnið sem S800 framleiðir en Sigurjón er með ýmis járn í eldinum. „Ég er meðal annars að þróa stóra framhaldsþáttaseríu, sem ég get ekki sagt meira frá í augnablikinu, en þetta tekur allt nokkur ár í vinnslu.“

Skaupið er vinsælasti sjónvarpsþáttur ársins, sem allir hafa skoðun á, en þeir félagarnir segjast ekki munu stressa sig á viðtökum þjóðarinnar

„Ég hef komið við í nokkrum Skaupum og við Eiður unnum síðast saman í Fóstbræðraskaupinu 2016. Við munum fylgjast með klippivinnunni og við sendum þetta ekkert frá okkur fyrr en við erum orðin ánægð. Þá verður ekkert stress á gamlárskvöld,“ segir Sigurjón að lokum.

Fyrri greinGul viðvörun: Stormur í vindstrengjum
Næsta greinIngi aðstoðar Dino á Selfossi