„Þetta er bara ég“

Anna Magga. Ljósmynd/Ingibjörg Torfa

Þann 19. febrúar næstkomandi mun tónlistar- og leikkonan Anna Margrét Káradóttir gefa út sitt fyrsta frumsamda lag.

„Þar sem það var rólegt í giggheimum í samkomubanni varð ég að finna sköpuninni farveg svo ég skráði mig í lagasmíðanám hjá Söngsteypunni. Mig hefur lengi langað að semja mína eigin músík þar sem ég hef í mörg ár sungið lög eftir aðra. Mér fannst ég eiga það inni hjá sjálfri mér. Eftir fyrstu helgarlotuna fæddist þetta lag. Það þurfti ekki meira til þess að koma mér af stað!“ segir Anna Margrét, eða Anna Magga eins og hún er iðulega kölluð, í samtali við sunnlenska.is.

Lagið heitir Red flags en Anna Magga segir að það sé mikilvægt að hunsa ekki rauðu flöggin. „Ég vil ekki gefa upp of mikið um hvað lagið er. Mér finnst mikilvægt að hlustandinn búi sér til sína sögu við lagið og tengist því þannig en lagið er ákveðið uppgjör. Uppgjör og úrvinnsla tilfinninga skulum við segja.“

Magnað að heyra einhvern flytja lagið sitt
„Ég fékk hljómborð lánað hjá vinkonu minni, fór heim með það, byrjaði að spila einhverjar nótur og bæði melódía og texti fæddust í kjölfarið og mér þótti bara strax afar vænt um lagið og hugsaði að ég þyrfti að fara lengra með það. Þar sem ég er klarinettleikari en ekki hljómborðsleikari þá varð ég auðvitað að hóa í almennilegan hljómborðsleikara og hafði samband við Tómas Jónsson sem gaf laginu enn meira líf. Magnað að heyra einhvern flytja lagið sitt í fyrsta sinn og gæða það svona fallegu lífi, ég er honum afar þakklát fyrir það,“ segir Anna Magga.

Anna Magga við upptökur á laginu. Ljósmynd/Aðsend

Aðspurð hvernig hún myndi lýsa laginu segir Anna Magga að þetta sé ballaða. „Ég er mikill ballöðusucker svo það kom ekki annað til greina en að semja eina slíka.“

Anna Magga segist vera ótrúlega spennt fyrir því að gefa út sitt fyrsta lag. „En um leið finnst mér ég alveg ótrúlega berskjölduð. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem ég sem eitthvað svosem, ég hef skrifað leikrit og flutt en þá skýlir maður sér á bakvið einhvern karakter. Þetta er bara ég.“

Í skýjunum með útkomuna
Upptökur á laginu voru í höndum bandarísku tónlistarkonunnar Zöe Ruth Erwin. „Mig hefur lengi langað að vinna með henni, eða alveg síðan ég heyrði tónlistina hennar í kvikmyndinni Lof mér að falla. Hljóðheimurinn hennar heillaði mig strax enda skilar hann sér í lagið mitt. Hún útsetti til dæmis alveg ótrúlega fallegar raddanir í lagið. Hún og Ásmundur Jóhannsson mixuðu síðan lagið og sáu til þess að hljóðheimurinn nyti sín í botn og Jóhann Ásmundsson masteraði síðan lagið. Ég er í skýjunum með útkomuna,“ segir Anna Magga.

„Ég er nú þegar komin með nokkur lög sem ég á eftir að taka upp og stefnan er sett á plötu, hvenær sem það verður en það er allavega á to do listanum!“

Sem fyrr segir kemur Red Flags út 19. febrúar næstkomandi. „Lagið kemur út á Spotify og helstu streymisveitur og vonandi taka útvörpin bara vel í það í kjölfarið!“ segir Anna Magga að lokum og bætir því við að hún sé bara rétt að byrja.

Instagramsíðan

Facebooksíðan

 

Fyrri greinEmir Dokara í Selfoss
Næsta greinÍslenskur landbúnaður verði að fullu kolefnisjafnaður árið 2040