Þegar Steingrímur Hermannsson „varð ljóslaus“

Nýlega kom út hjá Bókaútgáfunni Hólum bókin Hormóni og fleira fólk – Missannar sögur frá síðstu öld. Höfundur bókarinnar er Halldór Ólafsson sem starfaði lengi sem tæknimaður á Norrænu eldfjallastöðinni og þar áður í allmörg ár hjá Olíuverslun Íslands. Hann hefur á langri lífsleið haldið til haga skondnum sögum af sjálfum sér og öðrum og það má með sanni segja að skemmtilegri bók er vandfundin. Hér fylgir með sagan af því þegar Steingrímur Hermannsson, þá starfandi rafmagnsverkfræðingur, lenti í vandræðum með… rafmagnið:

Á sjötta áratug síðustu aldar kynntist ég Guðmundi Jónassyni fjallabílstjóra og fór að ferðast með honum vítt og breitt um öræfi landsins. Ég var á þessum tíma við nám í rennismíði, ekki langt frá verkstæði Guðmundar í Þverholti. Ég kom þar því oft við á leið heim úr vinnu, aðallega til þess að forvitnast um hvort eitthvert spennandi ferðalag væri á döfinni. Í þá daga var unnið á laugardögum til hádegis á verkstæðinu, þar sem ég lærði, eins og víðast annars staðar.

Það var eitt sinn seint í nóvember 1956 að ég kom við hjá Guðmundi í Þverholti eftir hádegi á laugardegi. Hann var þar að smyrja yfirbyggðan GMC-trukk sem bróðir hans, Jón Húnfjörð, hafði lánað honum til að sækja nokkra poka af grjótsýnum úr Prestahnjúk, fjalli inni á Kaldadal. Bergið í Prestahnjúk er að mestu úr „perlite“ sem svo nefnist á erlendum málum en hefur fengið nafnið perlusteinn á íslensku. Perlusteinn hefur þann eiginleika að þenjast út við upphitun og nýtist því vel til einangrunar þegar búið er að meðhöndla hann á réttan hátt.

Steingrímur Hermannsson rafmagnsverkfræðingur, síðar forsætisráðherra og seðlabankastjóri, hafði stofnað fyrirtæki ásamt fleirum sem kanna átti notagildi bergsins með sölu og útflutning til Bandaríkjanna í huga. Gárungar kölluðu þetta fyrirtæki „Seljaland“ sín á milli.

Ég spurði Guðmund hvort ég mætti koma með í leiðangurinn og hann sagði það velkomið. Ég yrði bara að drífa mig heim og skipta um föt því að hann færi fljótlega.

Ég var snöggur heim því að stutt var á Guðrúnargötu 6 þar sem ég leigði herbergi þetta ár og vorum við komnir af stað um þrjúleytið. Með okkur var einn af bílstjórum Guðmundar, Heiðar Steingrímsson. Ekið var sem leið lá um Mosfellssveit til Þingvalla en er þangað kom var farið að skyggja, enda veður þungbúið. Þegar við komum inn fyrir Biskupsbrekku var komið svartamyrkur en þegar við töldum okkur vera komna á móts við Hrúðurkarla sáum við veikan bjarma fram undan sem hvarf og birtist til skiptis. Fljót lega varð þessi bjarmi að daufu, blikkandi ljósi sem hvarf öðru hverju þegar leiti bar á milli. Við veltum mikið fyrir okkur hvað í fjandanum þetta fyrirbæri væri en komumst ekki að neinni niðurstöðu. Mér fannst reyndar, þar sem ég sat hálfklemmdur milli Guðmundar og Heiðars, að Heiðari stæði bara alls ekki á sama því að hann var farinn að tala um yfirnáttúrulega hluti sem fólk á fjöllum yrði stundum vart við. En fljótlega kom í ljós hvaða fyrirbæri þetta var því að við mættum jeppa sem ók á móti okkur í myrkrinu með blikkandi stefnuljós eitt ljósa. Þarna voru á ferðinni Steingrímur Hermannsson og sérlegur ráðgjafi hans, Tómas Tryggvason jarðfræðingur. Við fengum líka strax skýringu á því hvers vegna bíll þeirra félaga var ljóslaus. Steingrímur og Tómas höfðu farið inn að Prestahnjúk daginn áður og gist í verktakaskúr þar á staðnum, en um nóttina frysti, og þegar þeir ætluðu að leggja af stað til Reykjavíkur kom í ljós að kælivatn bílsins hafði frosið.

Nú voru góð ráð dýr og eftir miklar vanga- veltur og pælingar um það hvernig leysa mætti vandamálið kom verkfræðingnum í hug að eldur væri lausnin. Hann vissi sem var að eldur skapar hita og hann væri eini hitagjafinn sem þeir höfðu völ á þarna á staðnum. Félagarnir náðu nú í strigapoka og vættu hann vel í bensíni áður en þeir smeygðu honum undir vatnskassa bílsins og kveiktu í. Og viti menn, vatnið í vatnskassanum bráðnaði en bálið varð helst til mikið svo að vírarnir, sem lágu til framljósa bílsins, brunnu, stefnuljósið var þess vegna eina ljósið sem virkaði og við það varð að notast í myrkrinu. Er við höfðum hlustað á skýringar þeirra félaga sagði Guðmundur: „Jæja, strákar, eigum við ekki að kíkja undir húddið?“

Heiðar ók nú trukknum til hliðar þannig að bílljósin lýstu upp framenda jeppans og Guðmundur fór að garfa eitthvað undir húddinu. Skyndilega varð allt umhverfið uppljómað og Guðmundur, dálítið drjúgur með sig, sagði við Steingrím sem bograði við hlið hans: „Svona förum við að, sem höfum ekki rafmagnsverkfræðimenntun, til að láta ljósið skína.“ Guðmundur hafði sem sagt tengt framljósin beint á rafgeyminn.

Heldur var stutt um kveðjur þegar hvor hópur hélt sína leið en sagt var að verkfræðingurinn hefði aldrei litið fjallabílstjórann réttu auga eftir þessa kennslustund á Kaldadal. Segir ekki meira af ferð okkar annað en það að við lukum erindinu við Prestahnjúk og komum einhvern tíma eftir miðnætti til Reykjavíkur.

Fyrri greinÞór sendir frá sér nýja ljóðabók
Næsta greinGjörningur og listamannaspjall á lokadegi sýningar