Fyrsti í aðventu 1982:
Þegar allt er alveg að verða til
Þau komu tvö saman í bæinn rétt eftir miðnætti á laugardegi, konan sat á smávöxnum hesti, sem maðurinn teymdi. Hiti var rétt undir frostmarki og yfir Ölfusánni lá molla, þokuský sem liðaðist yfir jörðina um gaddfreðinn lággróður. Fólkið og hesturinn gengu hægt yfir brúnna inn á Selfoss í froststillunni í kolsvartri aðfaranótt aðventunnar árið 1982.
Yfirbragð þeirra var framandi, á einhvern hátt kryddað svolitlum erlendum blæ.
Enginn á Selfossi hafði séð svona uppákomu um hávetur.
Konan var klædd í þykka kápu, með hnausþykkan trefil vafðan yfir höfuð og háls. Hún sat klofvega á hestinum og hélt sér með báðum höndum í hnakkinn. Hún lyfti höfði stöku sinnum til að virða fyrir sér ólgandi ána undir brúnni og til að horfa á jólaljósin yfir Austurveginum á Selfossi, sem færðust nær. Það sást vel á konunni að hún var með barni og gæti átt það á næstu dögum. Hún var komin langan veg og langt á leið. Hætt var við að þessi hestaferð gæti hraðað hríðum.
Það var sem parið drægi á eftir sér níðþunga reynslu mannkyns, þyngsli fyrri alda, þúsund tonn úr forneskju. Slík var hægðin. Þau tóku níðþung spor inn á Austurveg og ekkert að flýta sér. Maðurinn gekk löturhægt en virtist þekkja leiðina.
Hann var líkt og konan klæddur þykkum, síðum frakka sem strauk við jörð. Á höfði hans var stór loðhúfa sem minnti á rússahatt. Um hálsinn var trefill sem huldi skeggið.
Gufustrókar stóðu úr nösum manns og hests.
Fáir voru á ferli í miðbæ Selfoss um þetta leiti nætur. Nokkuð var um bílferðir fram og aftur Austurveginn.
Parið gerði hlé á ferð sinni við brúarsporð.
Bíll brunaði úr bænum með opinn glugga. Úr bílnum barst söngur. Ragnhildur Gísladóttir söng lagið Jóla jólasveinn með Brunaliðinu.
Annars lét parið með hestinn ekki trufla sig þá fáu bíla sem fóru um götur bæjarins. Þau gengu í hægðum sínum í snjófjúki undir jólastjörnu fram hjá Kaupfélaginu og beygðu upp Tryggvagötu.
Ungmenni á rúntinum sögðu aðkomufólkið bera með sér trúarlegt yfirbragð, einhvern óútskýrðan, spes heilagleika sem líktist sögum sem Sigurður prestur hafði sagt þeim frá upp úr Biblíusögunum og þau lesið um í kristinfræðitíma í Barnaskólanum.
Það var langt síðan, fyrir næstum tvö þúsund árum. Við vorum komin langt í burt frá þessum fjarlæga tíma. Við vorum að klára tuttugustu öld og tæknifólk.
Við áttum nuddtæki og fiskabúr, múlínex og vídeótæki.
Við vorum komin inn í framtíðina.
Biblíusögurnar heyrðu fortíðinni til.
En næturnar í veröldinni hafa alltaf verið eins.
Nóttin sú var nístingsköld og niðdimm. Fólkið og hesturinn gengu fram hjá Barnaskólanum við Tryggvagötu. Gufa stóð upp úr útilauginni og heitu pottunum í sundlauginni. Þau héldu áfram yfir Eyrarveginn. Á hægri hönd þeirra var leikskóli. Á þá vinstri hóllinn með uppgreftrinum úr öllum húsunum í nýju hverfunum.
Við áttum okkar skerf í þessum salla.
Þau námu staðar við hólinn og virtu hann fyrir sér.
Þarna stóðu gömlu fjárhúsin. Í þeim voru nokkur hundruð kindur þegar mest lét í gegnum árin. Undir það síðasta örfáar rollur á fæti, soddan tómstundabúskapur sem sæmdi ekki bæ sem er að verða til. Fortíðin mátti ekki flækjast fyrir framtíðinni.
Eigandi fjárins og hestanna rak fé út á vorin og kom þeim í hús eftir sumarið. Hestarnir vöppuðu um túnið.
Parið bar í brjósti brostnar vonir, hafði óskað sér að flytja í fjós, þau vildu vera sem næst vænu heyi, helst taði og skít, finna lykt af dýrum.
Leggja börn í jötu.
Nú hafði fjárhúsunum verið rutt í burtu og húsum skipt út fyrir hól.
Þess í stað hafði fjölskyldan þurft að finna sér annað þak yfir höfuðið.
Ég lá í rúminu mínu og var að laumast til að lesa bók. Ég var aðeins ellefu ára og klukkan langt gengin inn í nóttina. Ég var kominn djúpt inn í bókina þegar ég heyrði út um gluggann taktfast fótatak hestsins í snjónum og frýs hans, lagði bókina frá mér, reisti mig upp og fór að fylgjast með fólkinu virða hólinn fyrir sér.
Tunglið lýsti hólinn upp. Hann var kolsvartur í nóttinni, svolítið líkur maga liggjandi konu sem langt var komin á meðgöngu. Efst skagaði út bingur eins og útstæður nafli.
Undir hólnum flöktu skuggamyndir manns og konu á hesti í snjófjúkinu.
Þau héldu af stað á nýjan leik og gengu inn Fossheiðina í átt til okkar.
Fólkið og hesturinn hægðu á sér á götunni við blokkina okkar og gengu svo löturhægt inn á bílastæðið.
Þau námu staðar fyrir framan stigaganginn í blokkinni.
Fyrir framan Fossheiði 58.
Þau virtu blokkina fyrir sér. Konan lagði hönd á útstæðan maga og í birtunni frá ljósinu í anddyrinu sá ég dularfullt bros lýsa upp andlitið.
Börnin komu með sérleyfisbílnum daginn eftir, krakkaskarinn var slíkur að rútu þurfti undir þau.
Enginn flutningabíll kom með innbú.
Blokkin í Fossheiðinni lítur alveg eins út nú og hún gerði árið 1982. Tíminn hefur farið um hana mjúkum höndum og fortíðinni haldið þar vel við. Hún er í sömu litum, bílastæðið er enn þá malarvegur og enn ekki búið að planta neinum trjám eða fleira prjáli í garðinum.
Þetta er tveggja hæða fjölbýlishús með þremur stigagöngum, í hverjum þeirra voru þrjár íbúðir á hvorri hæð.
Íbúðin fyrir neðan okkur hafði staðið auð í nokkra daga áður en nýja fólkið kom.
Ég vissi aldrei hver átti íbúðina. Hún hlaut að hafa verið í útleigu því íbúar komu og fóru og sumir dvöldu þar lengur en aðrir, sumum kynntumst við en öðrum ekki.
Það spurðist strax út í blokkinni að nýtt fólk hefði flutt inn í íbúðina fyrir neðan okkur.
Enginn vissi samt hver þetta væri, hvaðan þau voru og þar fram eftir götunum. Fáir sáu fullorðna fólkið en börnin sáust annað slagið þegar þau fóru út og komu heim.
En hvað varð um klárinn?
Það vissi enginn.
Fólk klóraði sér í hausnum.
Mamma lagði ríka áherslu á að við yrðum að bjóða nýja fólkið velkomið í blokkina. Pabbi þrástagaðist við.
Þau þyrftu að koma sér fyrir áður en við færum að skipta okkur af.
Svona gekk samtalið frá morgni fyrsta sunnudags í aðventu og fram yfir kaffi. Þá gafst pabbi upp og gekk niður á neðri hæðina í sameigninni.
Þegar pabbi opnaði dyrnar hnusaði hann út í loftið og spurði: Hvaða lykt er þetta eiginlega?
Að því sögðu hvarf hann inn í myrkrið niður á neðri hæðina.
Við heyrðum hann banka og svo ekki söguna meir.
Hálf klukkustund leið þar til pabbi sneri aftur og lýsti hann heimsókninni fyrir okkur:
Hann bankaði sumsé á dyrnar og beið í oggustund þar til lítill drengu með brúnt krullað hár opnaði fyrir honum. Hann horfði upp til pabba með stórum en sorglegum augum, ekki ósvipuðum þeim af drengnum í myndinni í rammanum sem hékk lengi inni í stofu. Krulluhausunum fjölgaði hratt í gættinni, barnahausum á alls konar barnaskólaaldri. Pabbi taldi sjö börn þar til maður á miðjum aldri birtist í dyragættinni. Hann opnaði hurðina upp á gátt. Áður en pabbi hafði komið því út úr sér að hann þyrfti að eiga orð við manninn var hann kominn inn í forstofuna og búið að loka dyrunum að baki honum.
Ég var svo undrandi, sagði pabbi.
Hann furðaði sig á gestrisninni, lyktinni úr íbúðinni.
Það var sem hann hefði stigið inn í sveit.
Lyktin minnti á Flúðir.
Engin húsgögn var að sjá, ekkert punt og minna prjál, engin borð og engir stólar, ekkert sjónvarp í holinu eins og uppi hjá okkur, engar myndir á veggjum eins og hjá okkur. Ekki var kveikt á einu einasta ljósi – eins og alltaf hjá okkur. Gólfið var þakið heyi frá útidyrum og inn í stofu, inn í hol og virtist inn í herbergin. Samt var næg birta inni í íbúðinni frá ljósi sem hvergi var.
Heyið var öðruvísi en yfirleitt í sveitum, það var fremur mjúkt undir sokkaleistunum.
Lyktin færi úr þeim í góðum þvotti.
Í miðri stofunni stóð smávaxinn hestur og japlaði úr jötu.
Hvað gekk að hjá þessu fólki?
Nýju nágrannarnir voru að breyta íbúðinni í hlöðu eða fjós.
Við þurfum að taka þetta upp á húsfundi, sagði pabbi við mömmu þar sem hann sat í eldhúsinu og fylgdist með henni undirbúa aðventumatinn.
Mamma spurði um konuna og börnin.
Þau sátu í eldhúskróknum, þeim sem var alveg eins og okkar. En ekki við borð heldur á heyhrúgum og koddum á gólfinu. Þau drukku vatn og jöpluðu á brauði.
Hann spurði og fékk svar:
Brauð úr manna. Mannakornum.
Eins og hljómsveitin? spurði mamma.
Pabbi kinkaði kolli. Hann hafði aldrei séð annað eins.
Fólkið var öðruvísi en hingað hafði komið. Við höfðum auðvitað ekki fengið margar heimsóknir fólks frá öðrum löndum á Selfoss, hvað þá frá fjarlægari heimshlutum. Þessi fjölskylda var þessleg, öll með eilítið dekkri húð og hörund, hárið svolítið krullað og liðaðra en okkar, sum með svart liðað hár en flest með brúnt í stíl við augun.
Þau gátu allt eins verið að vestan, já eða austan, mögulega frá Fáskrúðsfirði…
En svo var það hreimurinn. Hann var svolítið syngjandi, svolítið norrænn, kannski sænskur.
Þau kynntu sig með lágum söng og löngu e…i. Fóru ófeimin lóðbeint í melódíu og sungu:
Faaa… miljen Jeeeeeeesus… Jesssss ússss.
Familjen Jesús.
Mamma hváði:
Jesús? Eins og þessi…. Jóla-Jesús?
Pabbi kinkaði kolli en hélt svo áfram:
Það var góður andi í íbúðinni. Þrátt fyrir skringilegheitin hafði honum liðið vel, fundið hlýju innan í sér, varð allt í einu miklu sáttari við guð og menn.
En við þurfum að taka þetta upp á húsfundi, sagði hann.
Þetta með heyið og lyktina.
Mamma tók undir: Þú spillir ekki sameigninni.
En pabbi bætti við:
Ég bauð þeim í mat…
Hvað segirðu, Beggi? spurði mamma undrandi.
Ég… Hann hikaði.
Ég bauð þeim… Ég bauð þeim í mat.
Í sama mund var bankað á útidyrnar.
Þau hétu Jósef Jesússon, með tveimur essum… Jesúss Jósefssonar, Jósefs Maríussonar, Jesússonar, Jóseps- og Maríusonar… Og svo framvegis… Jesússonar Jósefssonar, Jósepssonar… með effi og Maríusonar.
Og svo mátt nú lengi telja.
María var mær.
Hún bandaði hægri handlegg yfir til barnaskarans: Það er fullt starf.
Jósep og María virtust ekki orðin fertug. Samt voru Jósepsbörnin sjö – öll á grunnskólaaldri og eitt á leiðinni. Það elsta var Jóhannes, svo kom Páll og Súsanna, Sara, Rakel, Jesús og Júdas. Ef ófædda barnið yrði drengur myndi hann heita Lúkas, ef það yrði stúlka þá myndi hún fá nafnið Magdalenda.
Stundum tók María að sér börn annarra.
Sumir veltu fyrir sér hvernig stæði á því að hún gæti hugsað um svona mörg börn, og átti þá við skarann sem bætti við hennar eigin.
Einhvern vegin blessaðist þetta samt allt saman hjá henni.
Jósep var smiður og forfeður hans höfðu verið smiðir langt aftur í karlleggi. Ægilega langt aftur í forneskju. Þeir flökkuðu um og tóku að sér alls konar verk, hitt og þetta og höfðu alltaf gert.
Hann var farandsmiður, einn þeirra síðustu, sérfræðingur á sínu smíðasviði, og ferðaðist með fjölskyldunni hvert á land sem var til að sinna eftirspurn. Hingað var fjölskyldan Jesússon komin því fjölskyldufaðirinn hafði fengið það verkefni að smíða krossana sem reisa átti á Fossheiðarhæð, á hólnum framan við blokkina okkar.
En bíðum nú aðeins…
Nú verðum við að staldra við og staðsetja Selfoss í sögunni:
Bærinn stóð á tímamótum, vegamótum þess liðna og þess sem verða vildi. Selfoss var að breytast úr torfbæ í blokk. Selfoss var þannig sé að fóta sig inn í framtíðina. Árið 1982 voru aðeins liðin rúmlega 40 ár frá því Selfoss breyttist úr sveitabæ í Sandvíkurhreppi og fór að standa á eigin fótum sem Selfosshreppur, húsaþyrping í kringum Ölfusárbrú og Mjólkurbúið. Árið 1982 voru aðeins fjögur ár frá því Selfoss varð að kaupstað.
Nú var hér margt óklárað og hálfklárað, ógrynni af nýteknum húsgrunnum og hálfbyggðum húsum, fjárhús voru enn á stangli og hestar á beit í húsagörðum. Við brúarstólpa var byrjað á að byggja hótel við hlið bíósins, sem hafði átt betri daga og var svo ýtt út af borðinu fjórum árum síðar.
Á Selfossi árið 1982 voru íbúarnir í kringum fjögur þúsund.
Hér var lögreglustöð með svo fáum klefum að þegar vista þurfti tvo ólátabelgi úr öðrum bæjarfélögum yfir nótt þá varð annar þeirra að sofa úr sér á elliheimilinu, ef rúm losnaði af náttúrulegum ástæðum.
Næturgisting á lögreglustöð var vesen í vaxandi bæ, það voru takmörkuð gæði.
Eins dauði er annars dívan, eins og sagt var.
Úr þessu þurfti að ráða. Bókað var á fundi bæjarráðs að taka upp gamlar refsingar og heldur harkalegri við alls konar brotum, ofsaakstri, sem sumir gagnrýndu þar sem ekki var nokkur vegur að komast yfir meira en 40 kílómetra hraða á malarvegum innanbæjar; skattsvikara og skuldara hjá skatti (á þessum tíma var ekki búið að taka upp staðgreiðslu), skuldara við Kaupfélagið og skuldara við Mjólkurbúið.
Búðirnar voru vart fleiri en þessi ef frá er talin Fiskbúðin og Lindin. Skuldasafnanir við hið opinbera voru hins vegar ekki fleiri.
Harkalegar refsingar þóttu líklegri en aðrar til að forða gerendum frá því að brjóta af sér, eins konar fyrirbyggjandi aðgerða.
Fólk ætti ekki að sækja í refsingu. Þau sem fýsti í slíkt væri líklega flest aðkomufólk.
Ókunn nautn kom að utan.
Ýmsar leiðir voru skoðaðar, flett upp í Grágás og Jónsbók og Landnámu og Grettissögu, meira að segja Jón sögu Arasonar biskups. Hálshöggvanir voru í harkalegra lagi og tiltölulega endanlegar. Þær myndu fækka bæjarbúum og ekki var vilji til þess. Ekki stæði til að refsa fyrir of hraðan akstur á Eyravegi með því að gera ökumenn höfðinu styttri.
Það gengi ekki.
Pískun, hengingar, opinberar flengingar, drekkingar og aflimanir gengu líka of langt, þær voru of harkalegar og gátu gengið af fólki dauðu.
Hvað var til ráða?
Jú.
Biblían, uppspretta jólasagna og páskasagna og hins heilaga orðs, geymdi svarið.
Krossfestingar voru málið.
Öðru hverju voru birtar aðsendar greinar í Dagskránni þar sem bréfritari hélt því fram að í þessu máli stæðu Sunnlendingar framar samlöndum sínum í öðrum sýslum. Krossfestingar voru ódýr kostur, forvirk lausn sem muni virka.
Sunnlendingar voru frumkvöðlar, við yrðum stjörnur í augum annarra.
En hvar átti svo að pota þessum krossum niður?
Selfoss hefur ætíð glímt við þann galla að vera marflatur bær og blasir sjóndeildarhringurinn við í allar áttir.
Nema…
Ekki þegar horft er til Ingólfsfjalls og til Fossheiðarhæðar.
Ingólfsfjall kom ekki til greina til krossfestinga. Það var alltof hátt, engin leið var að drattast með krossa upp eftir. Krossfestingar voru líka þess eðlis að vegfarendur áttu að sjá þau sem þar héngu. Engin sýn var upp á Ingólfsfjall. Forvirkni þeirra aðgerða var lítil, ef nokkur.
Fossheiðarhæð, fjallið eina á Selfossi, hóllinn eini sem við krakkarnir nýttum þegar snjóaði til að renna okkur. Átti að taka gleðina af börnunum?
Þarna átti að endurtaka Biblíuna og reisa þrjá krossa uppi á Fossheiðarhæð. Utanbæjarfólk myndi umbreytast í kurteisa öðlinga og skattsvikarar greiddu sitt með brosi á vör.
Ég er sumsé kominn til að smíða þessa krossa, sagði Jósep við okkur þar sem við sátum við borðstofuborðið í Fossheiðinni árið 1982.
Krossinn, sagði hann, hann er í garðinum uppi við hús. Ég smíða krossana út frá þeim fyrsta, frumgerðinni, þeirri sem hefur alltaf fylgt okkur, frá ómunatíð. Alveg frá… Frá því…
Það var ekki laust við að rödd hans titraði örlítið.
Jósep Jesússon, Maríusonar, Jósepssonar, Jesússonar, Jóseps… Jesú.
Mamma las í aðstæður og hnippti í pabba, sem ræksti sig og spurði:
Er þetta mikið verk?
Timbrið kom frá Þorlákshöfn, Eyrarbakka og Stokkseyri. Rekaviðardrumbar sem þarf að flytja landleið, heljarinnar stykki, þrír metrar á lengd og gríðarþungt. Hann þurfi allavega þrjá til sex drumba í verkið.
Þetta þarf að finna og vinna, saga niður og mæla og gera þetta vel úr verki, sagði hann á milli þess sem hann gæddi sér á lambinu.
Hann hældi því í hástert. Það var lungamjúkt, safaríkt, svo mátulegt, gómsætt.
María tók undir.
Þetta var þvílík veisla – og ekki komnir páskar.
Þótt lærið væri eitt, kartöflurnar ætlaðar fimm, ein krús af rauðkáli og sósa úr pakka var nóg fyrir alla.

Annar í aðventu 1982:
Börn Drottins ganga þyrnum stráðan menntaveg.
Nýju börnunum var dreift niður á bekki í Barnaskólanum á Selfossi í samræmi við aldur, alveg frá fyrstu bekkjum til þeirra efstu og meira að segja inn í Gagnfræðaskóla. Júdas var ellefu ára og kom í bekkinn minn. Eins og við þekkjum öll þarf hvert okkar sinn tíma til að venjast nýjum hópi, læra á okkar fólk, mingla og verða eitt með hópnum.
Það gekk illa hjá Júdasi.
Við tókum snemma eftir því að Júdas fetaði aðra stíga en önnur börn. Hann rakst víða á, kastaði smáhlutum í stelpurnar sem hann vildi spjalla við, klagaði flesta krakka um allt og var iðinn við að kenna öðrum um. Þegar kennarinn og við nemendurnir bárum upp á hann skaðræðið lék hann hlutverk sakleysingjans.
Fréttin af leikrænum tilburðum Júdasar barst fljótt til Leikfélags Selfoss, sem falaðist eftir kröftum hans og hæfileikum. Stjórn félagsins ræddi um ungan aldur, þetta var jú soddan hæfileikabúnt.
Tvær æfingar þurfti til að forkólfar leikfélagsins áttuðu sig á áráttuhegðun vandræðagemlingsins.
Júdas var beðinn um að fara og snúa aldrei aftur.
Á öðrum í aðventu lágu þrír dauðir skógarþrestir við útidyr leikfélagsins. Fólk þurfti ekki að leita sökudólgs.
Júdas var ekki barnanna bestur.
En hann var heldur ekki barnanna verstur.
Hinir krakkarnir dreifðust víða um skólana báða á Selfossi, og skiptust niður eftir aldri.
Yngstu börnin fóru í Barnaskólann og þau eldri í Gagnfræðaskólann.
Jesús litli fór í Stubbuna, bekk fyrir byrjendur, enda sex ára.
Flestum varð snemma ljóst að hann hafði sína meðfæddu djöfla að draga.
Fljótlega eftir að Jesús kom inn í Stubbuna fór að bera á undarlegum háttum kennarans. Þau sem muna eftir árinu 1982 og skipulagi skólamála á Selfossi vita að fyrstu bekkir Barnaskólans voru í útistofum, bráðabirgðahúsnæði sem entist á skólalóðinni í 40 ár.
Stubbubekkurinn var í einu húsi. Tveir aðrir bekkir voru líka í útihúsum en hluti árganga í aðalbyggingunni. Allt fór þetta eftir fjölda krakka í hverjum bekk.
Aðalbyggingin var þak yfir krakka fram yfir sjötta bekk. Eftir að við urðum nógu stór fórum við í hina bekkina þrjá handan sundlaugar, sem markaði landamærin yfir í Gagnfræðaskólann, sem nú heitir Vallaskóli.
Krakkarnir í Stubbubekk Jesús voru fyrst nemenda í skólanum til að segja frá skrítnum uppákomum. Þetta átti sér stað undir lok tíma í stærðfræði. Í stað talna og einfaldrar samlagningar tók kennarinn að lýsa því fyrir börnunum að hann hafi í raun aldrei ætlað sér að verða kennari. Hann hafi æft á klarínett með Lúðrasveit Þorlákshafnar eða Hveragerðis og hafi hugsað sér að halda áfram á tónlistarbrautinni. En fólk hafi sagt það dauðadæmt, frystihúsin og fiskvinnslurnar væru fullar af tónlistarfólki með margar prófgráður og mikla hæfileika. Svo væri mikið af hæfileikaríku fólki á bótum.
Hann ætti að spila fyrir sjálfan sig en skrúfa niður í draumunum og læra eitthvað gagnlegt.
Fara í kennarann…
Gera við bíla…
Gera gagn.
Framtíðarhorfur klarínettuleikarans voru á þessum nótum, síðustu tónarnir fjöruðu út og hann lærði að verða kennari.
En setjum fyrirvara við lýsingarnar. Heimildamennirnir voru auðvitað börn að segja foreldrum sínum frá, fullorðnu fólki sem bar saman bækur sínar.
Við erum hér að dusta rykið af fjörutíu ára minningum.
En þetta mátti ekki viðgangast, guði sé lof að jólafríið nálgaðist. Stærðfræðin gæti fokið út í veður og vind hjá krökkunum.
Eftir annan í aðventu sást kennarinn með allt niðrum sig fyrir utan Stubbuhúsið að míga upp við vegg.
Aðrir vegfarendur sem urðu vitni að herlegheitunum sögðu hann hafa ælt úr sér lungu og lifur utan við húsið, rétt við anddyrið.
Þetta gerðist fyrir hádegi á mánudag.
Í öðrum bekkjum tóku kennarar upp á því að skrópa í tíma. Sumir komu of seint, aðrir einfaldlega mættu ekki.
Sagt var að skólastjórnin hefði farið heim til eins kennara og hitt þar fleiri blindfulla í heimapartýi.
Þetta gerðist á morgni miðvikudags.
Það var utan velsæmis.
Engar reglur voru um áfengisneyslu kennara á þessum tíma. Neyslan var viðurkennd en vandamálið var ekki komið upp á yfirborðið. Bjór var auðvitað ekki hægt að kaupa í landinu, þegjandi samkomulag var um landaframleiðslu á stöku bæjum, almennt var neysla á verulega vondum áfengum drykkjum töluvert algengari þá en nú.
Fljótlega varð ljóst að fleiri íhlaupakennarar úr Kennaraháskólanum voru komnir í störf í Barnaskólanum á Selfossi en þeir fastráðnu, sem voru á kojufylleríum heima hjá sér.
Skólastjórinn kallaði til fundar dag einn eftir hádegið snemma í desember. Til fundar mættu bæði tilfallandi kennarar að sunnan og þeir fastráðnu sem voru vaknaðir, flestir hvítir eins og uppvakningar og nokkuð þunnir eftir partýstand inn í nóttina.
Ástandið var vonlaust.
Skólastjórinn bauð upp á kaffi og með því, vínarbrauð úr Guðnabakaríi, kleinur úr Kaupfélaginu. Pakkfullt var á kennarastofunni. Skólastjórinn setti fundinn af krafti, hann barði í borð og stóð á fætur til að undirstrika mál sitt. Hann hélt reiðilestur yfir hópnum og þakkaði fyrir að hópur fólks hefði hlaupið í skarðið.
Þetta gengur ekki lengur.
Fólk yrði að sinna skyldum sínum, mæta til vinnu.
Kaffið kláraðist og vínarbrauðið rann ljúflega niður.
Hann sem skólastjóri yrði að segja fólki til syndanna.
Eftir að reiðilestrinum lauk var fyllt á kaffið, fleiri kleinur bornar á borð og bætt á vínarbrauðslengjurnar.
Undir liðnum önnur mál viðurkenndi skólastjórinn að draumur hans hafi ræst, hann hafi alltaf viljað verða skólastjóri. Reyndar hafi hann óskað þess að verða borgarstjóri. En hér á landi væri aðeins ein borg og Selfoss nær því að vera sveit en bær, þótt vissulega væri vaxtarkippur.
Lundin léttist á fólki sem fór að tala saman. Sumir laumuðust eftir pela í innanávasa, aðrir fengu sér meira kaffi og helltu út í.
Einn íþróttakennaranna sat óvenju þétt upp við kollega sem hafði komið í forfallakennslu úr bænum til að taka við þriðja bekk. Þeir töluðu saman í hálfum hljóðum milli þess sem þeir sögðu frá kennslu og daglegu lífi.
Augu þeirra tindruðu eins og jólaljós. Þeir biðu spenntir eftir því að opna sína pakka.
En bíðum við!
Fundurinn leystist upp, skólastjórinn fór út á klassískar freudískar brautir þar sem foreldrar hans voru sökudólgar, umsjónarkennari í öðrum bekk brast í grát út af óuppgerðum málum í bernsku og svo mátti lengi telja.
Hvað var í gangi hér?
Fólk talaði um að kennarar í Barnaskólanum væru farnir að drekka meira en áður, jafnvel meira en góðu hófi gegndi. Staðan var orðin slæm hjá sumum, þeir verstu væru orðnir það sem Jósep kallaði með sinni sönglandi röddu:
Alkahóóólísteeer.
Guði sé lof að það voru að koma jól.
Skólastjórnin mælti með því að jólafríið hæfist fyrr en nokkru sinni. Kennararnir þyrftu að komast í stand fyrir aðfangadag. Leikhópar gætu nýtt tímann til að æfa sig betur en nokkru sinni fyrir jólaleikritið á jólaskemmtuninni.
Á kennarastofunni var kosið um skólaslit út af partýstandi. Niðurstaðan var afgerandi.
Förum í frí.
Uppákoman í hópi kennaranna varð til þess að jólafríið hófst miklu fyrr en stefnt var að.
En hvar voru jólasveinarnir?
Við vorum öll farin að bíða eftir þeim.

Þriðji í aðventu 1982:
Jólasveinalaus bær og aðrar furður
Aðventan skipar ætíð sérstakan sess í hugum fólks. Þetta er tíminn þegar jólin eru að stimpla sig inn í huga fólks.
Þá eru dregin fram öll þessi krydd og annað meðlæti sem skapa jólin.
Uppskriftin eru jólalög og músastigar, smákökur og smástyttur, jólakort og jólaglögg, jólaþrif og jólagjafir og alls kyns jólaþarfir sem bera með sér ilm af greni og furu, kanil, kertum og stöku vanillu, kuldagöllum, raka, bleytu og almennum jólablús.
Hreinar buxur, nýja sokka, straujaðar skyrtur, slaufur eða bindi og nýjan nærbol.
Rauðar nærbuxur eru efstar á skúffum þeirra sem kunna að halda kosmó jól.
Við förum líka öll í klippingu um jólin til Bjössa, Kjartans og Österby og hvað þeir hétu öll sem klipptu og skáru kollana í áttunni.
Ekkert er undarlegt við aðventuna.
Við viljum bara huggulegheit.
En á Selfossi á aðventunni árið 1982 urðu líka undarlegu uppákomurnar fleiri eftir því sem við færðumst nær jólum.
Þriðja sunnudag í aðventu kviknaði í jólatrénu við Mjólkurbúið, gríðarstórri stafafuru sem nýbúið var að skreyta með marglitri jólaseríu. Fólk sagði tréð hafa verið svo fallega lýst upp, þegar logarnir hafi teygt sig upp eftir trénu hafi serían gætt það sérkennilegum sjarma.
Sjarminn stóð skammt yfir því skömmu síðar tóku perurnar að springa frá hitanum hver á fætur annarri.
Fólk hafði safnast saman við Mjólkurbúið og fylgdist með jólumprýddu trénu fuðra upp. Jesú og Júdas stóðu þarna opinmynntir og héldu í báðar hendur mömmu sinnar.
Bæjarbúar spurðu sín á milli: Hver gerir svona lagað?
Séra Sigurður sóknarprestur taldi þetta líklega tengjast jólum frekar en unglingaveiki. Hann ætti líka að vita það, alinn upp af presti og hafði talað um starfið í útvarpinu.
Á þessari einu útvarpsrás sem þjóðinni var boðið upp á.
Um miðja vikuna barst sú saga um sveitina að á bænum Efri-Sýrlæk í Villingaholti hafi beljurnar tekið upp á því að syngja jólasöngva.
Og það á íslensku.
Vinnumaður sem var staddur í fjósinu þegar beljukórinn hóf upp rödd sína sagði Magnúsi bónda, að þetta hafi sér fundist í meira lagi undarlegt. Hann kunni enga skýringu á háttalagi kúnna, kannaðist ekki við lagið en viðurkenndi að hann væri meira á bókina en braginn.
Hann útilokaði ekki að einhvers konar fornyrðisbragur hafi verið á kveðskapnum, þetta var svo tyrfið.
Hann skyldi ekki baun.
Þetta hlutu að hafa verið gömul jólalög.
Meira fékkst upp úr vinnumanninum um sönginn því ófær var hann um að kópera eftir kúnum.
Nytin varð reyndar betri dagana á eftir en þynntist svo út eftir því sem leið á vikuna og varð helgina eftir eins og hún átti að sér að vera.
Ljóst var að samsöngur var jákvæður.
En svo voru það jólasveinarnir.
Þeir hreinlega ætluðu aldrei að koma sér í bæinn til að syngja jólin inn.
Hefð hefur lengi verið fyrir því á Selfossi að jólasveinarnir komi niður af Ingólfsfjalli og færi gleðina í bæinn fyrstu helgina í desember. En ekki núna. Við sem munum eftir jólunum árið 1982 gleymum því seint þegar jólasveinarnir komu ekki.
Alltaf kom eitthvað upp á.
Ferð þeirra frestaðir vegna veikinda og veðurs.
Brúnni var lokað vegna viðgerða.
Of mikil hálka á Austurvegi.
Ef það var ekki iðrakveisa þá var það fannfergi, sem olli því að öllum verslunum var lokað og fólk hvatt til að halda sig heima.
Á þriðja í aðventu voru jólasveinarnir loksins væntanlegir í bæinn.
Selfyssingar hröðuðu sér niður að Kaupfélaginu og fjölmenntu í tröppunum við verslunina til að taka á móti þessum árlegu grallaraspóum ofan af Ingólfsfjalli.
Við létum hvorki skafrenning né kuldabola sem beit okkur stanslaust í kinnar og nef koma í veg fyrir að við gætum séð jólasveinana.
Við höfðum beðið alltof lengi eftir þeim.
Búið var að smíða lítið svið á bílastæðinu við Kaupfélagið og tengja hljóðkerfi svo bæjarbúar gætu sungið jólasöngva með sveinunum.
Hópur barna og fjölskyldur þeirra hoppuðu sér til hita á tröppunum við Kaupfélagið og fylgdust með þegar grænlitaður vörubíllinn sást loksins undir Ingólfsfjalli. Hann silaðist nær Ölfusárbrú.
Börnin voru orðin spennt, stóðu dúðuðu í kuldanum og nudduðu saman höndunum í lopavettlingunum.
Kuldaboli beit af krafti í kinnar og nef.
Allt í einu fór kliður um hópinn. Lítill strákur í bláum galla benti í átt að jólasveinabílnum.
Bæjarbúar snéru hálsum og höfðum í sömu átt.
Það var engum blöðum um að fletta.
Hann var stopp á milli sláturhússins og Bellubars.
Á palli græna vörubílsins sáust þrettán jólasveinar í fullum skrúða. Þeir voru líkastir pínulitlum tindátum sem hoppuðu og skemmtu sér með hendur á lofti á vörubílspalli.
En nú fór að blása og kólna og fólk nuddaði í sig hita. Gufustrókar stóðu út úr munnum og nefum spenntra bæjarbúa á öllum aldri.
Fólk horfði í kringum sig og vildi inn í hlýju.
En rifjum nú upp takmarkanirnar. Hér voru búðir lokaðar á sunnudögum, líka kaupfélagið.
Ekkert húsaskjól var fyrir fólk sem þurfti að sækja í sig hita.
Bílvél fór í gang á bílastæði kaupfélagsins og skömmu síðar ók rauð Cortina eftir Austurveginum og út Ölfusárbrú í átt að jólasveinunum. Bæjarbúar fylgdust spenntir með því þegar bíllinn stoppaði og ökumaðurinn fór út. Hann gekk í átt að vörubílnum og átti orðaskipti við bílstjórann.
En auðvitað gerðist þetta allt langt í burtu, bíllinn var lítill, fólkið agnarsmátt og enginn heyrði hvað fram fór þarna hinum megin við ána.
Nú var farið að blása meira og fólki orðið verulega kalt.
Við sáum að maðurinn fór aftur í Cortinuna og sneri til baka yfir brúna. Hann stoppaði bílinn á Austurveginum, teygði sig yfir að farþegarýminu, skrúfaði niður rúðuna og sagði:
Það sprakk á bílnum. Þeir eru að laga þetta.
En þetta er stór bíll.
Tveir jólasveinar klöngruðust niður af vörubílspallinum.
Fólk fylgdist með þeim ganga hægt á móti snjófjúkinu í átt að brúnni.
Nú varð hríðin harðari og tekið að hraðfrysta, fólk var ekki klætt fyrir langa útiveru, hvað þá bið í klukkustund í kulda og trekki.
Spáin hafði heldur ekki lofað góðu.
Eftir því sem á leið fækkaði fólk enn frekar.
Þegar báðir jólasveinarnir voru loksins komnir yfir brúna stöldruðu þeir við á Austurveginum, pírðu augun inn í snjókófið og sáu ekki sálu bíða þeirra á tröppum Kaupfélagsins.
Þegar græni vörubíllinn skilaði sér var enginn jólsveinn eftir á palli bílsins.
Þótt þetta hafi allt saman verið undarlegar uppákomur í aðdraganda jóla þá létum við þær ekki trufla okkur.
Hvað vissum við annars?
Við vorum nýkomin af smákrakkastiginu og flest með nýfengið hvolpavit. Áttum við að vita hvernig jólin byrjuðu á hverju ári?
Voru kannski hver jól engum öðrum lík?
Við hugsuðum ekki um neitt annað en jólafríið, sem nú var runnið upp – og það fyrr en planað var. Nú gátum við sofið fram eftir, horft á allt barnaefnið síðdegis í sjónvarpinu, grafið okkur inn í alla snjóskafla og rennt okkur á snjóþotum alla daga.
Við fórum á Fossheiðarhæð til að renna okkur niður.
Við vorum í brekkunum á hæðarbrúnum.
Á meðan við renndum okkur vann Jósep Jesússon við smíði krossanna á miðri hæð og mátaði þá við landslagið.
Rekaviðurinn kom til hans á vörubílum í stykkjatali. Bílarnir settu krossana niður við hæðina og bar Jósep hvern drumb upp til sín á bakinu. Þetta voru gríðarstór batterí, sjóreknir beljakar sem rekið hafði að landi í Þorlákshöfn, Eyrarbakka og i kringum Stokkseyri.
Jósep mældi hvert stykki út, vó það og mat. Bestu drumbana tók hann fyrir, sagaði niður í hentugustu risastærðir og sagaði langsum í tvennt.
Hann sagði:
Það er eitt að vera krossfestur. Við leggjum það ekki á nokkurn mann að vera negldur upp á rúnað timbur, fólk fær í sig flísar. Slíkt er ómannúðlegt, sagði hann og vandaði sig við að kljúfa rekaviðinn í tvennt og slétti yfirborð hvers einasta helmings svo sökudólgar sýslunnar stingju sig ekki á neinum flísum, hvorki í bak og skanka.
Það var alveg nóg að hanga á Fossheiðarhæði í aðdraganda jóla.
En fólki fannst verkið ganga heldur hægt.
Á öðrum í aðventu hafði Jósep Jesússon reist einn kross upp á hæðinni. Krossinn var svo rækilega rekinn niður í hólinn að hann gat haldið fólki af öllum stærðum og gerðum, smávöxnum konum og körlum, átján ára og eldri, feitum og mjóum, fullorðnum, miðaldra og gömlum.
Tveir aðrir krossar voru eftir.
Myndi Jósep klára þetta fyrir páska?
Dag einn á aðventunni dinglaði Gummi vinur minn dyrabjöllunni heima.
Hann var óðamála og talaði á ljóshraða:
SMIÐURINN… JÓSEP SMIÐUR ER DAUÐUR Á HÓLNUM!
Svo sagði hann eitthvað fleira sem ég get enn í dag fyrir nokkurn mun ekki greint því Gummi vinur minn bunaði orðunum svo hratt út úr sér.
Þetta var alvarlegt.
Ég rauk til og klæddi mig í kuldagalla og bomsur, vettlinga og húfu og rauk út og við hlupum af stað.
Um leið og við komum út fyrir dyrastafinn tók ég andköf. Þarna sáum við Jósep í gegnum kuldamistur og snjófjúk.
Djúpur heilagleiki hvílir enn yfir myndinni og minningunni af Jósep og aðstæðunum. Snjór fauk yfir bílastæðið og snjóhraukana allt í kring. Frostið var ískalt og stingandi og út úr okkur liðu gufustrókar í hvert sinn sem við önduðum.
Fossheiðarhæðin blasti við okkur í fjarska. Efst á hæðinni stóð einn krossanna þriggja.
Á honum hékk Jósep Jesússon með útrétta handleggi. Hann draup höfði. Hann hefði verið alveg eins og Jesús á myndinni í kirkjunni ef ekki væri fyrir norparann sem hann klæddist, skíðagleraugun og hnausþykka lokahúfuna, en frostbarin eyrnalöfin á henni bifuðust í frostblænum eins og hárið á Jesú á krossinum í kirkjunni.
Við óðum skafla og sukkum í snjóinn á harðahlaupum að Fossheiðarhæð. Svitinn spratt fram undan heitum göllum.
Hjörtu okkar voru við það að springa af spennu.
Gummi hafði rétt fyrir sér.
Jósep smiður hékk hreyfingarlaus á gríðarstórum krossi með lokuð augun og útrétta handleggi í kuldalúffum.
Við göptum agndofa á hann.
Við höfðum séð dáið fólk í sjónvarpinu, séð myndir og greinar í blöðunum, heyrt af minningargreinum, séð fólk deyja í bíói.
En við höfðum aldrei í alvörunni séð dáinn mann.
Hvað þá á krossi.
En Jósep var ekki krossfestur. Hann hafði verið bundinn á höndum og um mittið á krossinn.
Við hrukkum í kút þegar Jósep opnaði augun og heilsaði okkur.
Heeeeja, strjákar míneeer. Tagg fyrir að koma, meeer var orðeð svolille kaalt.
Svolille hljómaði líkt og taktlaust kuldaglamur.
Hann setti skúffu á munni og blés upp að nefi sínu.
Getið þið hjálpeð mej?
Við náðum í koll og lítinn stiga og klöngruðumst allt í kringum krossinn. Bifuðumst við að losa bönd og klippa á kaðla.
Jósep hristi höfuðið á meðan. Hann hafi lagt sig hér á krossinum, verið að máta hann, sjá hvort þetta liti ekki bara vel út. Hvernig hendurnar stæðu inn á þverbitann.
En þetta hafi verið notalegt og hann sofnað og…
Strákarnir.
Höfðum við séuð Jesús og Júdas?
Þeir hafi kíkt til hans en meðvitundin hafi verið lítil í þessum notalegheitum, hlýtt hafi verið í kuldagallanum.
Þeir hafi verið að prakkarast, þessir drengir. Eins og allir strákar. Galgopast og prófa sig áfram í lífinu.
Bundið mig og reist krossinn við.
Prakkarar, sem séu að læra.
Jólin kenni okkur að þolinmæðin þrautir vinnur allar. Börn séu eins og bæir, strákar og stelpur eins og Selfoss. Allt að verða til. Allt að vaxa. Við erum malargötur og stígar einn daginn en malbikuð hinn. Við erum torfkofar í æsku en blokkir í bernsku. Fólk þurfi alla tíð þolinmæði og þor. Þor til að gera og þol til að horfa á sprettuna. Börnin læri, bæir vaxi. Ef eitthvað bjáti á sé gott að vita af miskunnsömu Samverjunum.
Okkur Gumma.
Hann blés sjálfan sig aftur til hita úr nefi í munn.
En seg… eðe mér stráker. Næ ég niðrá fótstegið?
Jósep nikkaði höfðinu niður eftir búknum og ruggaði fótunum, skórnir náði að kubbi sem stóð út úr krossinum neðanverðum. Hann var hugsaður fyrir fæturna, til að létta á þeim sem krossinn var ætlaður. Hann var til hægðarauka, til að draga úr…
Jósep ruggaði fótunum eins og hann væri að dingla þeim.
Þetta á ekki að vera v…ondt, hélt hann áfram. Fólki á ekki að líða illa… Þannig. Þau eru reyndar… þið vitið.
Næg þjáning að hanga fyrir allra augum fyrir alls konar syndir, bæði stórar og smáar.
Og svo er það auðvitað kuldinn.
Það tekur á að hanga á krossi og þá er gott að hafa stall til að tylla fótunum á.
Festa undir fótöm, þið veteð, það er í Beblíönni, sagði Jósep Jesússon í sama mund og hann spyrnti við fótum á kubbinn og hoppaði niður af krossinum.
Svefninn er góður á þessu stykki, en sá langi er enn betri…
Hann klappaði okkur á kollinn, var kampakátur og þakkaði okkur fyrir hjálpina.
Eröð þið komner í juleskæb?
Við kinkuðum báðir kolli.
Með það sama var Jósep Jesússon horfinn á braut. Við horfðum á eftir honum haska sér aftur heim í blokkina. Jólin voru á næsta leiti, afmæli Jesú var handan við hornið.
Afmæli Jesús litla þurfti að undirbúa.
Eftir stóðum við Gummi steini lostnir við krossinn á Fossheiðarhæð.

Fjórði í aðventu 1982:
Jólakveðjur og smjör
Þá rann loksins upp fjórði í aðventu árið 1982.
Nú voru aðeins fimm dagar eftir til jóla.
Lög Vilhjálms Vilhjálmssonar og Ellýjar systur hans ómuðu nú oftar í útvarpinu í bland við sprúðlandi gleði Ómars Ragnarssonar, laga með Brunaliðinu, Ruth Reginalds og hvað þau hétu öll sem tóku upp lög fyrir jólaplötur á þessum tíma. Við systkinin bjuggum til músastiga, föndruðum jóladót, pabbi vann í nýja húsinu okkar öll kvöld og mamma bakaði okkur inn í jólin.
Við kveiktum á síðasta aðventukertinu.
Jósep Jesússon og María kona hans höfðu lítið látið fyrir sér fara. Börnin sáust stöku sinnum, þau óðu snjóskafla ýmist til eða frá blokkinni. Í sameigninni barst allan liðlangan daginn framandi matarlykt frá íbúðinni þeirra.
En það var svo margt sem við þekktum ekki.
Á þessum tíma á Íslandi var margt takmarkað. Ýmsar ástæður voru fyrir því að margt var skorið við nögl. Verkföll voru vort daglegt brauð og margoft sem fólk í verslunarleiðangri kom að tómum búðarhillum, tómum mjólkurkælum og kjötfarslausum kjötborðum.
Það lýsir líka samfélaginu ágætlega að við vorum með eina útvarpsrás sem flutti okkur bæði lög unga fólksins og lög sjúklinga – einu sinni í viku – jólakveðjur, dánarfregnir, jarðarfarir og jólalög. Útvarpið sagði okkur líka frá kjarabaráttu og verkföllum, fólki sem lagði niður störf og fór frá vinnu, vildi meira borgar á morgun en í gær. Stundum fór útvarpið í verkfall, stundum kennarar, smiðir, málarar og fiskvinnslufólk.
Og þá varð þögn í útvarpinu.
Stundum var skortur á kjöti og fiski.
Almenningur varð að leita í sveitir landsins, í náttúrulegar matarkisturnar, búr móður náttúru. Hringt var bónda hér og bónda þar, búin urðu lífæð þéttbýlis. Fólk í nútíð lagðist á spena og sumir sugu fast.
Bændur gátu stundum ekki sinnt eftirspurn. Mjólk var á ríkisverði, smjör var á ríkisverði og ef mjólkurfræðingar lögðu niður störf spruttu upp smjörfjöll og kjötfjöll og hvaðeina.
Stundum þarf að fá mjólk beint af bæ úr belju, smjör úr sveit og ýsu úr hrollköldu hafi.
Þorskur hafði á þessum tíma ekki fundið sér leið á diska landsmanna.
Skortur setti stundum mark sitt á jólin.

Dag einn fyrir jól sagði mamma að við yrðum að fara saman í Kaupfélagið. Þar væri auglýst útsala á smjöri. Hún ætti ekkert eftir í ísskápnum og þyrfti fleiri stykki til að við gætum haldið heilög jól.
Úr hverju átti hún að baka inn jólin?
Hvað átti að smyrja á flatkökur og laufabrauð?
Það stefndi í skortjól, kreppujól með færri smákökusortum, engu laufabrauði, sósulausum jólum og þurrum hamborgarhrygg.
Galdur jóla var falinn í smjörinu.
Og þá var eins og kraftaverk kæmi að ofan. Auglýst var afsláttur af smjör í Kaupfélaginu.
Sá hængur var á máli, að hömlur voru á því hvað hver og einn mátti kaupa. Takmarkanir voru við þrjú stykki á mann. Nú var mamma búin að kaupa sín þrjú og vantaði fleiri.
Sex stykki af smjör hljómuðu eins og margra ára birgðir í mínum barnslegu eyrum.
Mamma bað mig um að koma með sér út í búð.
Ég varð svolítið upp með mér. Því nú hvíldu jólin svolítið á mér. Ég var bjargvættur jólanna.
En veðrið bauð ekki upp á verslunarleiðangur. Brostið hafði á með hávaðaroki og blindhríð, svo vart sást á milli húsa.
Við klæddum okkur í kuldagalla og lúffur, bomsur og settum á okkur húfur. Við vorum ekki skíðafólk og áttum engin skíðagleraugu til að verja okkur gegn hríðinni. Ég náði þess vegna í sundgleraugu og setti þau á mig.
Við fórum út í Volvóinn og skröltum inn í hríðina á keðjum á holóttum malarvegi í átt að Austurvegi og Kaupfélaginu.
Mamma lagði á bílastæðinu við Kaupfélagið. Hún endurtók að ég mætti aðeins kaupa þrjú smjörstykki. Fleiri fengi ég ekki. Hún lét mig fá nægt fjármagn fyrir smjöri og bað mig að fara varlega.
Það var ekki flókið mál að kaupa smjörið. Ég gekk inn í verslunina, lenti í röð sem hófst við útidyr og liðaðist svo hægt og rólega inn til vinstri í átt að mjólkurkælinum. Ekki var um auðugan garð að gresja. Nokkur smjörstykki voru eftir og ljóst að einhverjar mæður og börn færu tómhent heim.
Ég fann til í hjartanu að vita af því að einhver færu tómhent heim.

Þegar ég steig út fyrir búðina fauk ég að stað. Veðrið hafði versnað til muna á meðan ég var inni. Úti var hávaðarok, sem þreif mig með sér um leið og ég steig út fyrir verslunina og þeytti mér af stað.
Ég reyndi hvað ég gat að halda mér á fótum. Standa sem fastast og reyna að feta mig í gegnum hríðina í átt að bílnum okkar.
Í sama mund þreif vindurinn mig og þeytti mér af stað, ég greip í eina af fánastöngunum sem stóðu við bílastæðið og hélt í hana dauðahaldi. Ég sá vart út um augun. En ég sá þó örvæntinguna í andliti mömmu þar sem hún sat í bílstjórasæti Volvósins og reyndi af öllum sínum mætti að opna bílhurðina til að komast út og hjálpa mér.
Þrýstingurinn frá hávaðarokinu hélt hurðinni fastri.
Rokið feykti mér upp og togaði mig til og teygði. Ég hélt dauðahaldi í fánastöngina með hægri hendinni til að forða því að ég fyki út í buskann. Með þeirri vinstri hélt ég um plastpokann með smjörstykkjunum.
Ég mátti ekki… Ég gat ekki sleppt pokanum, ég mátti ekki sleppa hendinni.
Ég sá stóla feykjast á loft, konur fjúka, gamlan mann með staf þeytast hjá.
Allt í einu og með óvæntum rykk sprakk pokinn frá mér og smjörstykkin hurfu út í náhvítt kófið.
Allt var fyrir bí. Ég hafði klúðrað jólunum.
Ég var smjörlaus, mamma var smjörlaus. Við áttum ekkert smjör á laufabrauðið, í sósuna, á brúnuðu kartöflurnar. Mamma gat ekki bakað smákökur…
Jólin voru ónýt af því að ég hafði tapað smjörinu frá mér.
Ég horfði á tómann pokann þeytast um í rokinu og fann hvernig augun fylltust af tárum.
Ég var ellefu ára gamall og hafði klúðrað þessu.
Ég hafði eyðilagt jólin fyrir fjölskyldu minni.
Réttast fannst mér að sleppa takinu á fánastönginni og fylgja smjörstykkjunum eftir út í bylinn, ég átti ekki annað skilið en að hverfa út í hvítuna og fjúka út í buskann til að festast á einhverjum fjallstoppi.
Í gegnum snjófjúkið glitti öðru hverju í mömmu. Hún var sem óð í Volvónum, þeyttist um í framsæti bílsins og hamaðist til skiptis á bæði á bílstjórahurðinni og farþegahurðinni.
Hvoruga gat hún opnað vegna þrýstings frá rokinu.
Hún gerði hlé á brjálæðinu öðru hverju, setti báðar hendur á stýrið og starði til mín. Hreyfði munninn, talaði til mín en auðvitað heyrði ég ekki neitt.
Ég sá heldur ekki mikið.

Mig verkjaði í augun, mig verkjaði í öllum líkamanum.
Fingur mínir grófust inn í fánastöngina og mér var orðið dauðillt í öllum handleggnum á því að forða mér frá því að fjúka í burtu.
Það er enn skýrt í minningunni þegar ég varð að leggja augun fast aftur af því að mér var orðið dauðillt í þeim af völdum kuldans sem barði á andlitinu. Ég varð að loka augunum til að verja mig, til að hvíla mig.
Ég kreisti tárvot augun aftur og hugsaði til mömmu og pabba og systra minna og vina minna og bekkjarsystkina og fann til í öllum skrokknum.
Jólin voru smjörlaus og ónýt.
Ég hafði brugðist öllum.
Kramið hjörtu.
Eyðilagt minningar.
Ég átti ekkert skilið.
Ellefu ára gæti ég fokið út í veður og vind.
Innst inni vissi ég alveg að ég mátti ekki fyrir nokkurn mun sleppa takinu.
Ég opnaði augun og starði út í hvítt kófið… Þangað sem ég stefndi.
En þá sá ég þau.
Tveir dökkir en óskýrir dílar færðust nær.
Á sama tíma róaðist mamma. Hún horfði á mig stara út í snjóinn og færði sig að afturglugganum. Hún var með undrunarsvip. Þetta var fólk. Það færðist úr skjannabirtu í skýrleika, fönnin tók á sig mynd.
Og þá sá ég þau: Þetta var María mey sem óð í gegnum blindhríð, hún skýldi andliti og augum með vinstri handleggnum, sem hún hélt fyrir framan sjónlínu. Hægri handleggurinn stóð beint aftur úr henni. Í lófa hennar hvíldi annar, minni. Hún gekk með Jesús litla sér við hlið, svo kappklæddann í kuldagalla, með prjónahúfu á höfði og í lopavettlingum að hann líktist meira búttuðum engli á glansmynd en þeim granna og brúneygða Jesú Jósepssyni með krullurnar sem bjó fyrir neðan okkur í blokkinni.
María strunsaði öruggum skrefum að Volvónum og kippti bílstjórahurðinni upp. Hún teygði sig inn og nældi í mömmu.
Síðan horfði hún til mín þar sem ég stóð teinréttur út frá fánastönginni og starði með tárvott andlitið á það sem fyrir augu mín bar. Mamma reyndi að teygja sig í átt að mér en varð að hlífa sér frá miskunnarlausri hríðinni og neyddist til að hrjúfra sig upp að Maríu mey.
Hann teygði lúffuklæddan lófa til mín og greip um annan handlegg minn.
Það var sem handleggurinn færi í skrúfstykki, svo sterkt var tak Jesús.
Á örskotsstundu streymdi um mig öryggi og hlýr straumur sem mér leið svo vel af, og það var sem vindinn slotaði, ég sleppti takinu af fánastönginni og fann að fætur mínir sigu hægt og rólega aftur niður á stéttina fyrir framan Kaupfélag Árnesinga.
Samt var allt á þeytingi í kringum okkur. Bílar feyktust og fuku og veltust um í bandóðum hríðarbyl.
María mey óð aftur af stað og við mamma og Jesús litli fylgdum með í halarófunni.
María ýtti upp útidyrum Kaupfélagsins svo snjór og vindur feyktust inn á gólf í anddyri þess.
Hópur kvenna á ýmsum aldri stóð í hlýjunni í anddyrinu og vörðu sig frá votviðri, vindi og ískaldri hríðinni.
María stóð andartak í anddyrinu eins og til að velta hópnum fyrir sér, hún leit yfir hersinguna sem mætt var á stappfulla smjörútsölu Kaupfélagsins. Konur og börn stóðu kappklædd og kófsveitt í kuldagöllum með lopahúfur á höfði í þéttri röð, hún náði frá útidyrum að mjólkurkæli og þaðan að afgreiðsluborðinu og þaðan aftur í anddyrið.
Þaðan vildi enginn fara.
María gekk hnarrreist af stað kasólétt með bumbuna út í loftið undan opnum kuldafrakka, hún skundaði fram hjá röðinni með mömmu á vinstri hönd og Jesús litla og mig á þá hægri.
Augu kappklæddra kvenna og barna á ýmsum aldri fylgdu þeim eftir undan lopahúfum, rússahúfum, hettum og hári.
Hvað var þetta fólk að ryðjast fram fyrir í röðina?

Þegar við höfðum þrætt okkur fram hjá röðinni alveg frá útidyrahurðinni, inn að vefnaðarvörunni, til baka að blöðum og tímaritarekka þá vorum við loksins komin að mjólkurkælinum.
Jesús litli sleppti takinu á mér og mamma kom til mín og knúsaði þétt að sér.
María lyfti Jesú litla upp á lítinn koll sem stóð við mjólkurkælinn, tók með báðum höndum um höfuð hans og starði í andlit sonar síns. Síðan þuldi hún upp með sinni háu röddu og syngjandi sænska hreim:
ALLT SEM ÞÉR VELJEÐ… AÐ AÐRER ME…… MEN GJÖRE EÐÖR… DET… ÞEÐ SKJULEÐ ÞER OCH ÞEIM GJÖRE!
Amen.
Jesús litli svaraði ákallinu.
Já mamma mín.
Með því sama teygði María sig í smjörið í mjólkurkælinum og tók þaðan þrjú stykki sem hún rétti Jesús. Hann tók stykkin, horfði á þau og hallaði augum. Fólk var nokkuð viss um að hann hafði muldrað eitthvað oní smjörið áður en hann leit aftur upp, kinkaði kolli til konu sem bjó við Kirkjuveginn en er nú löngu dáin. Hún steig fram og rétti að því hendurnar fram eins og í leiðslu.
Jesús litli horfði djúpt í augu konunnar í sama mund og hann rétti henni smjörstykkin.
Menn gjöri yður…
Konan tók við stykkjunum og hélt þeim í höndum sér sem gull væri, hún gekk fram hjá afgreiðsluborðunum og enginn reyndi að stöðva för hennar. Konan hélt áfram að útidyrahurðinni, kona í gættinni hélt hurðinni opinni fyrir hana. Konan gekk út í kófið.
Við vitum ekki annað en að hún hafi átt ánægjuleg jól
Svona gekk þetta áfram, Jesús rétti hverri konunni á fætur annarri, hverju barni, hverri stúlku og dreng þrjú stykki af smjöri. Rambaði stöku maður inn gekk sá líka út með þrjú smjörstykki.
María veifaði til okkar mömmu og benti okkur á að koma til sín.
Áður en ég vissi af hafði Jesús litli látið mömmu fá þrjú smjörstykki og mig líka.
Allt sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður, það skulið þér og þeim gjöra, sagði Jesús litli og horfði djúpt í augu mín.
Ég varð orðlaus.
Þarna áttaði ég mig á því að þetta var í fyrsta sinn sem ég heyrði Jesús litla tala. Ég hafði aldrei talað sjálfur við hann og hafði enga ástæðu til. Hvað átti ég að segja? Rödd Jesús var hyldjúp og gríðarlega hljómfögur fögur, eins og Tom Jones á sterum. Hann talaði til mín, hann talaði gegnum fólk, Jesús var rödd alþýðunnar og himnanna, þessi raddblær sneri öllu á hvolf, Jesús litli virtist svo endalaust þroskaður, djúpvitur og með einhverjum undarlegum hætti, sérkennilega altumlykjandi og góður og sáttur þar sem hann stóð þarna á kollinum og afhenti konum Selfossbæjar hvert smjörstykkið á fætur öðru. Ég hlaut að hafa dofnað upp eftir þessa ömurlegu upplifun á tröppum Kaupfélagsins.

Nú eru liðin 43 ár síðan þessir atburðir í Kaupfélaginu áttu sér stað. Alltaf þegar ég rifja þá upp læðast úr sálarkytrunni gamlar leifar á djúpri sátt, hjartahlýju, trú á mannkyn og andleg þægilegheit. Þessi tilfinning læðist upp og yljar mér um hjartarætur.
Ég hef talið mér trú um að áfallið hafi á einhvern hátt slökkt á mér. Slökkt á vitundinni, skynjuninni. Ég komst ekki til sjálfs mín fyrr en tveimur dögum síðar á aðfangadag.
Hafði ég sofið allan tímann?
Foreldrar mínir sögðu að það hafi ekki verið raunin. Ég hafi vaknað, tekið þátt í daglegum störfum, borðað morgunmat, horft á sjónvarpið…
Eða var það ekki?
Þau klóruðu sér í höfðunum.
Pabbi sagði þetta aldeilis upplifun sem við mamma lentum í. Kaupfélagsstjórinn hafi auðvitað þurft að svara fyrir hvarf á gríðarlegum birgðum af smjöri úr versluninni.
Hann sagði þetta jólin í hnotskurn, sagði pabbi og hló að kaupfélagsstjóranum. Á jólunum ættu allir að vera sælir og þegar smjör vanti í smákökur og laufabrauð þá megi kaupfélagið ekki bregðast skyldu sinni.
Allt sem þér viljið að aðrir menn… sagði kaupfélagsstjórinn en var fljótur að bæta við að fólk hafi nýtt smjörútsöluna til að verða sér úti um hitt og þetta fyrir jólin og þess vegna geti fólk verið ánægt með veltuna í kaupfélaginu.
Þetta blessaðist jú allt, sagði hann.
Þegar ég vaknaði á aðfangadagsmorgun eftir ævintýrið og uppákomuna í Kaupfélaginu var mamma inni í eldhúsi að baka síðustu smákökusortina, pabbi var kominn í jólabaðið og ekki væntanlegur næstu klukkustundirnar, Vilhjálmur Vilhjálmsson og Ellý sungu jólalög í gömlu hljómflutningsgræjunum inni í stofu. Í útvarpinu inni í eldhúsinu var opið fyrir lestur jólakveðja frá langömmum landsins til barna og barnabarnabarnabarna og annarra ættingja og vina.
Þegar gengum niður fram hjá íbúð Jóseps og Maríu um sexleytið virtist enginn heima. Öll ljós voru slökkt þegar við komum til baka úr messunni hjá honum séra Sigurði. Við bönkuðum á jóladag og aftur á annan í jólum.
Jósep og María voru flutt með allan barnaskarann og hestinn í stofunni án þess að nokkur hafi orðið þess var. Við heyrðum ekkert af þeim upp frá þessu.
Á milli jóla- og nýárs bárust þau tíðindi um bæinn að bæjarstjórnin hafi hætt við áform sín um krossfestingar á Fossheiðarhæð. Selfoss væri að breytast úr sveit í bæ. Ekki væri við hæfi að halda í liðna hætti. Við hefðum jú rutt í burt fjárhúsum. Krossfestingar væru afturför.
Samningum hafi því verið rift við Jósep Jesússon og fjölskyldan flutt úr bænum á vit nýrra verkefna og nýrra ævintýra.
Krossarnir á hæðinni voru aldrei kláraðir. Átak þurfti til að losa þann kross sem þegar var fastur í jörð og hinir þóttu þungir og óhentugir til flutninga. Enginn fékkst til að taka þá á aðra öxlina og bera niður af hæðinni. Brak og rusl var því flutt á hólinn, safnað í brennu og kveikt í öllu á Gamlárskvöld.
Þar með endar sagan af sveitinni sem varð að bæ og undarlegum atburðum á Selfossi í aðdraganda jóla árið 1982.
—
Höfundur sögunnar er Jón Aðalsteinn Bergsveinsson. Forsíðumyndin er teikning sem Pétur Hrafn Valdimarsson teiknaði sérstaklega fyrir söguna. Litmyndirnar eru frá Sigurði Ellert Sigurjónssyni og allar teknar í gamla Kaupfélaginu, úr myndasafni foreldra hans, sem bæði unnu hjá Kaupfélaginu.

