
Það var fullt út úr dyrum á frábærum afmælistónleikum Karlakórs Selfoss, sem haldnir voru í Fjallasal Sunnulækjarskóla á Selfossi í dag.
Tæplega 400 gestir sóttu tónleikana en sérstakir gestir voru Karlakór Reykjavíkur og Lúðrasveit Þorlákshafnar og náði dagskráin hámarki sínu í samsöng kóranna við undirleik lúðrasveitarinnar. Þakið ætlaði að rifna af húsinu þegar talið var í Brennið þið vitar og fleiri þekkt karlakórslög sem fengu að hljóma í Fjallasalnum í dag.
Karlakór Selfoss var stofnaður þann 2. mars 1965 upp úr sönghóp sem hét Söngbræður og samanstóð að miklu leyti af starfsmönnum Mjólkurbús Flóamanna. Ýmislegt hefur drifið á daga kórsins í gegnum tíðina en í dag er fjöldi söngmanna um 70 og hafa þeir sjaldan verið fleiri.
Í kvöld munu kórmenn og eiginkonur þeirra halda afmælisveislu ásamt gestum sínum í Hvítahúsinu á Selfossi.

