Það væri tómt klúður að missa af þessu

Karlakór Selfoss á æfingu. Ef myndin prentast vel sést að kórmenn eru ekki í smóking. En fötin verða að sjálfsögðu klár fyrir sumarbyrjun. Ljósmynd/Karlakór Selfoss

Fyrstu tónleikar Karlakórs Selfoss í vortónleikaröðinni 2019 verða í Selfosskirkju í kvöld klukkan 20:30.

Tónleikar kórsins hafa notið mikilla vinsælda á undanförnum árum og í ár eiga tónleikagestir von á nokkuð öðruvísi tónleikum.

Jón Bjarnason sem hingað til hefur verið undirleikari kórsins brá sér í stjórnandahlutverkið í vetur og þá dugði ekki minna en fjórir undirleikarar í staðinn. Hljómsveitina skipa Daníel A.C. Jones á píanó, Jón Þorsteinn Reynisson á harmóniku, Þórir Guðmundsson á bassa og Rúnar Þór Guðmundsson á trommur.

Efnisskráin er mjög spennandi, bæði létt og klassísk. Að vanda mun kórinn opna tónleikana á Árnesþingi Sigurðar Ágústssonar og síðan rekur hver perlan aðra; Þú komst í hlaðið, Dimmir eru dagar, Finlandia og Norður við heimskaut, svo eitthvað sé nefnt en líka létt dægurlög eins og Allur lurkum laminn, Önnur sjónarmið og Íslenska konan. Hér eru aðeins nefnd nokkur lög til sögunnar og óhætt er að segja að það væri tómt klúður að missa af þessu.

Þrennir tónleikar til viðbótar eru fyrirhugaðir; þriðjudaginn 30. apríl kl. 20:30 í Selfosskirkju, fimmtudaginn 2. maí í Fella- og Hólakirkju kl. 20:00 og lokatónleikarnir laugardaginn 4. maí kl. 17:00 í Skálholtsdómkirkju.

Fyrri greinGöngustíg við Seljalandsfoss lokað norðanmegin
Næsta greinSelfyssingar Lengjubikarmeistarar í B-deildinni