„Það er þetta ógnvænlega andrúmsloft sem ég reyni að fanga“

Bjarni M. Bjarnason fyrir utan Læknishúsið á Eyrarbakka. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Læknishúsið heitir ný skáldsaga eftir Bjarna M. Bjarnason, sem bókaútgáfan Veröld gefur út. Sagan byggir á atburðum frá því Bjarni bjó sjálfur í Læknishúsinu á Eyrarbakka ásamt eiginkonu sinni, Katrínu Júlíusdóttir, sem þá var iðnaðarráðherra í fyrstu ríkisstjórn Íslands eftir bankahrunið.

Gamla Læknishúsið á Eyrarbakka er ættarsetur Bjarna, en langafi hans, Gísli Pétursson héraðslæknir, byggði það árið 1916 og húsið hefur alla tíð verið í eigu fjölskyldunnar.

„Við Katrín giftum okkur árið 2011 og skömmu síðar var hún orðin ólétt af tvíburum. Við sáum að við þurftum að stækka við okkur og á meðan við lentum á milli húsnæða þá ákváðum við að koma hingað. Þetta var um vetur, snjóþungan og frostharðan, og hún var oft að fara yfir heiðina með bílstjóranum sínum, kasólétt í aftakaveðri á meðan ég var einn hérna heima. Og svo þegar tvíburarnir voru fæddir þá var ég einn hérna heima með þá. Þá fór að rifjast upp þessi tími þegar ég bjó hérna, 10 til 11 ára gamall. Ég hafði búið í Færeyjum í nokkra mánuði og þvælst þar um götur Þórshafnar og safnað flöskum, frekar en að vera í skóla. Afskaplega góður tími. Svo kom ég hingað og hélt uppteknum hætti, þóttist ekki finna skólann, og fékk þá tækifæri til þess að flækjast með þessum körlum sem bjuggu hér í húsinu, ömmubræðrum mínum, Sigga og Pétri,“ segir Bjarni og á þar við bræðurna Sigurð og Pétur Ólaf Gíslasyni.

Hafnaði í húsi með jaðarsettum mönnum
„Þeir voru orðnir gamlir. Siggi talaði aldrei og Pétur var orðinn hálf sjónlaus en hann missti svo sjónina alveg. Þeir voru sjálfbjarga og iðnir. Pétur var með veðurathuganir og bókasafnið, sem var dálítið skrautlegt. Ég fékk aðeins að hjálpa þeim með það. Pétur hafði áhuga á því að láta lesa upp fyrir sig og ég gerði það. Síðan báru þeir út blöð og seldu happdrættismiða, svo þeir höfðu nóg við að vera. Ég var að þvælast um með þeim og fór ekki í skólann. Ég hef verið að hugsa þetta svolítið sjálfur, nú á maður sjálfur börn og það er alltaf ætlast til þess að börn séu alin upp samkvæmt einhverri strangri uppeldissálfræði. En hérna hafnaði ég í húsi með mönnum sem er óhætt að segja að séu jaðarsettir. Þeir höfðu báðir átt við geðræn vandamál að stríða og það var hætta á að þeir myndu enda inni á geðdeildum í Reykjavík, en hérna í gamla ættarsetrinu fengu þeir að spreyta sig og komust svona ágætlega af. Og svo er ég bara einn með þeim heilmikið. Þá kemur bara í ljós að þeir eru ágætis félagsskapur,“ segir Bjarni og bætir við að samræðurnar á heimilinu hafi örugglega verið svolítið sérstakar.

„Pétur var Nýalssinni og trúði á kenningar Helga Pjeturssonar. Hann hafði mikinn áhuga á draumum og taldi að þeir væru vitnisburður um líf á öðrum hnöttum. Svo við ræddum ýmislegt um drauma. Og ég held að það hafi haft áhrif á mig því ég safnaði draumum og seinna gaf ég út draumadagbók, sem heitir Nakti vonbiðillinn. Það sem ég er að segja er að uppeldið þarf ekki alltaf að vera samkvæmt einhverri pedagógík, heldur voru þetta einlæg samskipti við menn sem höfðu áhuga á barninu og voru að ræða við það á sínum nótum. Börn skynja yfirleitt svona einlægni og finna öryggi í því. Þegar fólk er þeim velviljað og þau fá hlutverk og tilgang á heimilinu, eins og ég fékk með þeim. Ég var of ungur til þess að vera að velta því fyrir mér að þetta væri eitthvað sérstakt. Þegar ég lít til baka þá hef ég ekki bara hlýjar tilfinningar, heldur vottar alveg fyrir svona föðurtifinningu frá honum Pétri.  Ég hafði miklar mætur á þeim bræðrum.“

Ef manni finnst vera einhver nálægð í húsinu, þá eru það þær
Gísli Pétursson, langafi Bjarna, var skipaður héraðslæknir á Eyrabakka árið 1914 en Eyrbekkingar tóku honum ekki allir vel og samskiptin voru stirð í upphafi.

„Gísli hafði verið læknir á Húsavík þar sem hann kynntist Aðalbjörgu Jakobsdóttur. Þau tóku saman þar og fluttu hingað þegar hann fékk embættið. Þegar þau komu hingað fyrst, læknishjónin, þá hafði verið hér afleysingalæknir og það voru margir háttsettir íbúar á Eyrarbakka sem bjuggust við því að hann yrði læknirinn og voru ekkert hressir þegar Gísli var skipaður. Hann átti dálítið erfitt með það fyrst og fólk var tregt að koma til hans. Þau bjuggu í timburhúsi hér úti við sjó, Samúelshúsi, sem síðan brann, og sumir vildu meina að það hefði verið brennt ofan af þeim því það var aldrei upplýst hver eldsupptökin hefðu verið. Þá byggði hann þetta hús, Læknishúsið, og þau áttu hér nokkur góð ár, þangað til þessi veiki kom upp í húsinu,“ segir Bjarni, en árið 1926 kom upp taugaveiki í húsinu.

„Þá veiktust amma og systir hennar og Vigdís vinnukonan, og hann Siggi. Siggi hafði fram að því verið efnilegur maður, skrifað smásögur fyrir rit ungmennafélagsins og fleira, hann lifði, en varð aldrei samur eftir veikindin. Þetta var sérstök saga. Og þessar stúlkur hafa vakið hjá mér spurningar þegar ég hef verið í húsinu. Ef manni finnst vera einhver nálægð í húsinu, þá eru það þær. Og af því að ég er sjálfur að hugsa um hvernig verður maður að manni, hjá hvernig fólki þroskast maður. Þá hafa þessar stúlkur verið hjá sama fólki og ég, hjá þessum bræðrum. Þekkt þá á öðrum tíma, með öðru fólki og maður sér ekki annað en að þær séu lukkulegar og hamingjusamar. Stúlkan deyr á svipuðum aldri og ég er þegar ég var hérna – en ég fæ að lifa og maður fær þá tilfinningu að mann langar til að fylla út í það sem hún fékk aldrei sagt. Taka við einhverju kefli.“

Nota mér hrollvekju elementin alveg hiklaust
Bjarni segir að þessi saga sé búin að fylgja honum ansi lengi og það sé erfitt að segja hvenær hann byrjaði að íhuga hana. Og eins og aðrar bækur sínar, skrifaði hann bókina í Læknishúsinu.

„Það var líka erfitt að skrifa hana, ég er búinn að vinna að henni í fjögur ár, en ég lít meira á mig sem ritara sögunnar, því hún tók mig eiginlega yfir og leiddi mig í ýmsar áttir. Ég settist kannski niður til þess að skrifa einhverja ákveðna hluti en svo var ég farinn að skrifa eitthvað allt annað, þangað sem sagan tók mig. Þetta er hugsað sem raunsæ ættar- og fjölskyldusaga, og hún er hefðbundin að því leiti. Menn hafa kannski gengið of langt finnst mér í því að taka spennu og hroll úr raunsæjum bókmenntum og fagurbókmenntum. Sögulega séð eru þessir hlutir allir hluti af fagurbókmenntum, þannig að ég var að reyna að minna á að í fagurbókmenntum á spenna og hrollur heima. Og ég nota mér hrollvekju elementin alveg hiklaust.“

Horfði kannski óvenju hvasst á fólkið hérna á Eyrarbakka
Tími Bjarna og Katrínar í húsinu var sérstakur og þó að sagan sé byggð á sönnum atburðum segir Bjarni að sumir atburðirnir séu nákvæmlega eins í bókinni og þeir voru í raun og veru.

„Það sem var sérstakt við þann tíma var að Katrínu höfðu borist hótanir, eftir bankahrunið. Þetta var fyrsta ríkisstjórnin eftir hrunið og það var spenna í loftinu. Þá komu hingað frakkaklæddir embættismenn og sögðu okkur að það væri engin hætta á ferðum – en, við þyrftum að hafa öryggiskalltæki á náttborðinu og í eldhúsinu. Og ef maður ýtir á takkann þá heyra þeir allt sem gerist í húsinu og það ekki yrði hægt að slökkva á því fyrr en það kæmi einhver sérfræðingur og slökkti. Þeir sýndu okkur myndir af þeim sem gætu verið ógnandi, ef maður skyldi rekast á þá. Þannig að ég horfði kannski óvenju hvasst á fólkið hérna á Eyrarbakka. Ég var alltaf vanur að horfa hérna út um gluggann á sjóinn og finna friðinn, en það var alltaf lögreglubíll hérna í garðinum. Þannig að þeir tóku þessar hótanir alvarlega og fylgdust með okkur. Þetta er andrúmsloft ógnar, konan er ólétt, það er vá sem hangir yfir og ég er að hugsa um mína fortíð hérna í þessu húsi. Og við erum að mynda fjölskyldu… hvernig fjölskylda var þetta sem bjó hérna, hvernig verður okkar fjölskylda miðað við þeirra, munu okkar börn lifa eða veikjast? Það lá eitthvað í loftinu, og það er þetta ógnvænlega andrúmsloft sem ég reyni að fanga,“ segir Bjarni og bætir við að hann geti ekki farið of nákvæmlega ofan í söguþráðinn. Lesandinn þarf að upplifa hann sjálfur.

„En við getum sagt að það er ekki allt sem sýnist, og að á bakvið öll andlit sem birtast í sögunni er ekki samskonar sál og við eigum að venjast. Þannig að, jú, það er reynt að skyggnast yfir í aðra heima. Og ég lærði það svosem af honum Pétri frænda að gera það. Hann var nú ekki nema að hluta til hérna á jörðinni, það má nú segja að hann hafi verið vinaleg vofa. Hans hugarheimur var allur á annarri plánetu.“

Útgáfuhóf í Læknishúsinu á laugardag
Útgáfu bókarinnar verður fagnað í Læknishúsinu á Eyrarbakka næstkomandi laugardag, 15. desember, kl. 16-18. Bjarni mun sýna myndir, lesa upp úr bókinni, og allir eru velkomnir í kaffi.

Fyrri greinKveikti í hárinu á mér í erfidrykkju
Næsta greinÍbúðafélag Hornafjarðar hses tekur við nýjum íbúðum