„Það er ekkert í boði að slá af“

Bjartmar og Bergrisarnir. Ljósmynd/Kristinn R. Kristinsson

Bjartmar og Bergrisarnir verða með tónleika á Sviðinu í miðbæ Selfoss laugardaginn 4. febrúar og hefjast þeir klukkan 21.

Í samtali við sunnlenska.is sagðist Bjartmar vera spenntur fyrir kvöldinu en þetta er í fyrsta skipti sem hann spilar með Bergrisunum á Selfossi.

„Gestir eiga von á góðu, þarna verður farið yfir ferilinn í yfir 40 ár og við erum meira að stíla inn á lögin sem fólk þekkir. Við viljum fá stemningu og söng úr salnum. Svo verðum við auðvitað með nýju lögin sem ég hef gefið út með Bergrisunum á síðustu tveimur árum,“ segir Bjartmar.

Afköstin hafa verið mikil upp á síðkastið en Bjartmar og Bergrisarnir gáfu út fjögur ný lög á síðasta ári, meðal annars Á ekki eitt einasta orð og Af því bara sem hafa hlotið afburða vinsælda.

„Við erum búnir að vera mjög duglegir að spila á síðasta ári og höfum allstaðar fengið gífurlega góðar undirtektir. Svo höldum við bara áfram í sumar og erum að taka upp ný lög núna. Það er ekkert í boði að slá af,“ segir Bjartmar og hlær.

Hljómsveitina Bergrisana skipa ásamt Bjartmari þeir Júlíus Freyr Guðmundsson á bassa, Birkir Rafn Gíslason á gítar, Daði Birgisson á hljómborð og Arnar Gíslason á trommur.

„Þetta verður bara rokk og ról. Við erum spenntir fyrir kvöldinu, þetta er í fyrsta skipti sem ég kem með Bergrisana á Selfoss og ég hlakka mikið til að sjá þennan nýja tónleikastað, Sviðið, sem fer svo gott orð af,“ sagði Bjartmar að lokum.

Miðasala er í fullum gangi á tix.is

Fyrri greinSef alltaf í ullarsokkum
Næsta greinSkorar á Vegagerðina að opna aftur fyrir umferð