Tengir mikið við kínversku stjörnuspekina

Dagur Fannar Magnússon. Ljósmynd/Úr einkasafni

Dagur Fannar Magnússon, prestur í Fríkirkjunni í Reykjavík, svaraði nokkrum áramótaspurningum fyrir sunnlenska.is

Hvernig var árið 2025 hjá þér? Árið 2025 var heilt yfir mjög gott, eigum við ekki að segja ár vaxtar og umbreytingar. Það er í raun áhugavert þegar maður lítur til baka að sjá hvað maður tengir mikið við hina kínversku stjörnuspeki í þetta sinn. Árið 2025 er víst ár snáksins en hann losar sig við gamla hreistrið sem eitt sinn þjónaði honum er gerir það ekki lengur en fær svo rými til að vaxa. Einhverjir spekingar segja nú að næsta ár taki ekki við hjá manni fyrr en gamla skinnið hættir að hanga á halanum á manni. En við eigum eftir að sjá hvort það sé eitthvað meira. Enn í hinum veraldlega heimi þá var þetta ansi gott, ég fékk nýtt starf sem prestur í Fríkirkjunni í Reykjavík og það er algjörlega stórkostlegt.

Hvað stóð upp úr á árinu? Það er nú svo margt, sumarið er náttúrulega alltaf góður tími og útilegurnar með fjölskyldunni minni eru mér svona efst í huga. En það voru nokkur áhugaverð verkefni, ég gaf til að mynda saman fólk í flugvél og síðan voru nokkrir persónulegir sigrar. Til að mynda keppti ég á mínu fyrsta aflraunamóti og sigraði það. Keppti líka á hálandaleikum og síðan í kraftlyftingum. Ég virðist bara ekki nenna að hreyfa mig bara heilsunnar vegna, ég verð að hafa eitthvað að keppa að. En það þýðir ekki bara að þjálfa skrokkinn, hugurinn verður að vera með líka. Ég tók nokkur námskeið í andlegum fræðum sem voru algjörlega umbreytandi, það er eiginlega verst að það skuli ekki vera hægt að keppa í hugleiðslu og andlegri iðkun.

Dagur er fyrrum frjálsíþróttakempa og því er oft stutt í keppnisskapið. Ljósmynd/Úr einkasafni

Hvaða lag hlustaðir þú oftast á? Það eru nú eiginlega tvö lög svona ef ég kíki á Spotify, annars vegar Í faðmi fjallanna með Helga Björns og svo Kærleikur og tíminn með KK en það lag er í svolitlu miklu uppáhaldi hjá mér og yngstu dóttur minni, Matthildi Sófíu 5 ára. Við eigum það til að spila það í bílnum og syngja saman með laginu.

Hvað finnst þér ómissandi að gera alltaf á gamlársdag/kvöld? Það er nú engin sérstök hefð sem er ómissandi hjá mér hvað þetta varðar, það væri ansi leiðinlegt að missa af Áramótaskaupinu, en svo er náttúrulega nauðsynlegt að hafa fólkið sitt í kringum sig. Svo bara þetta klassíska óhóflegt snakk át og almenn græðgi og sprengja flugelda og horfa á þá springa allt í kringum sig.

Hvað ætlarðu að gera um áramótin? Við fjölskyldan ætlum að vera heima hjá tengdaforeldrum mínum á gamlárskvöld, en á gamlársdag er ég að messa bæði á Grund og í Fríkirkjunni í Reykjavík og það væri náttúrulega bara frábært að sjá sem flesta. Á nýársdag ætla ég bara að fara á æfingu. Annað er ekki planað en gaman væri að hefja nýtt ár á einhverju rugluðu ævintýri, sjáum hvað gerist.

Dagur ásamt eiginkonu sinni, Þóru Grétu. Ljósmynd/Úr einkasafni

Hvað er í matinn á gamlárskvöld? Ég er nú bara ekki kominn svo langt, enda held ég að það sé ekki mitt að ákveða það heldur tengdaforeldra minna. Ég borða bara það sem að mér er rétt.

Strengir þú eitthvað áramótaheit? Ég hef nú ekkert hugsað neitt sérstaklega út í það. Mér finnst ég hafa verið að gera ágæta hluti núna 2025 sem ég væri bara til í að halda áfram með. Kannski væri verðugt verkefni að halda úti þakklætisdagbók. Ég hef svo mikla trú á því að iðka þakklæti, það er sennilega eitt öflugasta andlega verkfærið til þess að auka andlega velsæld. Þakklæti á það til að víkka út sjónarhorn manns á möguleika í lífinu. Þegar maður hættir að horfa bara á fæturna á sér og fer að horfa á víðáttu himinins þá er nú bara ansi margt sem opinberast fyrir manni. En það er ekkert þannig að ég ætli mér að vera þakklátur fyrir allar aðstæður heldur að reyna að finna eitthvað í öllum aðstæðum sem ég get verið þakklátur fyrir. Hvort sem ég slái þetta í stein sem áramótaheit eða ekki þá held ég að ég byrji bara strax í dag. En áramótaheit þurfa svo sem ekki alltaf að vera lífstílsbreytingar, þau mega líka bara vera að upplifa eitthvað nýtt, prófa eitthvað nýtt, stíga út fyrir þægindaramann, ögra sér á einhvern hátt. Svo þarf þetta ekkert endilega að vera fullkomið. Ég held að það sé nóg að stefna á að þetta verði frábært.

Dagur Fannar. Ljósmynd/Úr einkasafni

Hvernig leggst nýja árið í þig? Ótrúlega vel. Ég get nú ekki sagt að ég sjái inn í framtíðina en ég hef á tilfinningunni að það verði mikill hraði á árinu í ýmsum efnum en fyrir mig persónulega þá held ég að þetta verði algjört met ár. Hvað eða hvernig það verður get ég ekki sagt en gott verður það. Árið 2025 er búið að vera eins og tilhlaup að hástökki og nú verður 2026 stökkið sjálft og ég held að ég nenni ekkert að lenda aftur.

Fyrri greinElska að undirbúa gott partý