Sýningarstjóraspjall í Listasafninu

Elísabet V. Ingvarsdóttir, sýningarstjóri, mun spjalla við gesti sýningarinnar Nautn og notagildi, myndlist og hönnun á Íslandi, í Listasafni Árnesinga í dag kl. 15.

Sýningin hefur verið vel sótt enda bæði skemmtileg og fróðleg. Elísabet er sýningarstjóri sýningarinnar ásamt Önnu Jóa en í dag mun Elísabet leiða gesti um sýninguna og svara þeim spurningum sem vakna.

Vegna áskorana er sýningartíminn framlengdur um tvær vikur svo sýningin megi nýtast skólahópum. Sýningarlok verða því sunnudaginn 30. september.

Á sýningunni er efnt til samræðu verka eftir á annað hundrað höfunda í þeim tilgangi að kanna snertifleti milli myndlistar og hönnunar á Íslandi. Sýningin spannar tímabilið frá öðrum áratug síðustu aldar til samtímans og felur því í sér yfirlit myndlistar- og hönnunarsögu þar sem víða liggja saman þræðir. Áherslur eru meðal annars fólgnar í sýningarumgjörð sem skírskotar til heimilisins. Heimilið er vettvangur þar sem mætast hlutir úr heimum myndlistar og hönnunar; hlutir er gefa tilverunni merkingu sem gjarnan er á óræðum mörkum nautnar og notagildis. Á sýningunni er sjónum beint að slíkum mörkum – en jafnframt að því landamæraleysi sem gjarnan einkennir samtímann – og skyggnst er eftir þeim sköpunarkrafti sem brýtur af sér höft og skilgreiningar.

Elísabet er með meistarapróf í hönnunarsögu frá Kingston University í London en áður lauk hún námi í innanhúsarkitektúr frá The North London Polytechnic og starfaði við það í mörg ár. Síðustu ár hefur Elísabet kennt við hönnunarbraut Tækniskólans og verið stundakennari við Listaháskóla Íslands auk þess sem hún hefur sett upp og sýningarstýrt sýningum um hönnun, nú síðast farandsýningunni Íslensk samtímahönnun sem sett var upp í sex löndum. Elísabet hefur einnig sinnt ritstörfum og haldið fyrirlestra um hönnun.

Listasafn Árnesinga er opið daglega á milli kl. 12.00 og 18.00.

Fyrri greinÆgir fékk silfrið
Næsta greinMannekla á erilsömum degi