Sýningarlok og spjall á sunnudag

Sumarsýningu Listasafns Árnesinga, HVER/GERÐI fer senn að ljúka, en henni hefur verið vel tekið af gestum.

Næst síðasta sýningardaginn, sunnudaginn 5. ágúst kl. 15:00, gengur listamaðurinn Sigrún Harðardóttir með gestum um sýninguna og segir frá fjölbreyttum verkum sínum sem þar eru, málverk, vídeóverk og gagnvirk verk.

Að ganga um sýningu í fylgd listamannsins er góð leið til þess að fá svör við ýmsum spurningum sem vakna við skoðun verkanna. Spurningum eins og hvernig er þetta gert eða hvers vegna vinnur listamaðurinn þetta svona?

Heiti sýningarinnar HVER/GERÐI býr yfir margræðni, en nær líka utanum viðfangsefni hennar sem eru hverir og gróður. Það kallast skemmtilega á við staðsetninguna, Hveragerði, og ef við berum titilinn fram með spurnartón, þá vaknar spurningin um hver gerði hvað og það á vel við því tvö verkanna eru gagnvirk og gjörðir gestanna hafa þar með áhrif á það sem er að skoða.

Í safninu er líka sýningin á útskriftarverkefnum arkitektanema frá Listaháskóla Íslands, en lokaverkefni þeirra var að hanna aðsetur listamanna í Hveragerði. Það skyldi staðstett innan bæjarmarka Hveragerðis og starfsemin skyldi að einhverju leyti tengjast við auðlindir, innviði, og sérkenni staðarins. Það er forvitnilegt að kynna sér tillögur arkitektanemanna sem endurspegla hugmyndaauðgi og vandvirkni.

Báðum sýningunum lýkur mánudaginn 6. ágúst kl. 18:00, en sem spjallið með Sigrúnu fer fram sunnudaginn 5. ágúst kl. 15:00. Aðgangur að safninu og á leiðsögnina er ókeypis og allir velkomnir. Safnið er opið alla daga kl. 12-18, en eftir 6. ágúst verður safnið lokað þar til 17. ágúst á meðan verið er að skipta út sýningum.

Fyrri greinMikil gleði á Flúðum
Næsta greinFlóðið náði hámarki við Sveinstind snemma í nótt