Sýningarlok í Listasafninu

Hvað eiga þeir Arnar Herbertsson, JBK Ransu og Davíð Örn Halldórsson sameiginlegt?

Á sýningunni Almynstur leitast sýningarstjórinn Sigríður Melrós Ólafsdóttir að varpa ljósi á það sem sameinar þessa þrjá listmálara þriggja ólíkra kynslóða. Sýningunni lýkur í dag.

Í Listasafni Árnesinga má einnig líta hvernig Baniprosonno skapar ævintýraheim með alls kyns pappír og miklu hugviti. Baniprosonno er indverskur myndlistarmaður sem á að baki aragrúa sýninga víðs vegar um heiminn auk þess að skrifa og myndskreyta bækur. Hann dvaldi í listamannaíbúðinni í Hveragerði síðast liðinn nóvember í sinni þriðju heimsókn til Íslands. Bæði Baniprosonno og Davíð Örn Halldórsson leiðbeindu ungmennum á ýmsum aldri á listasmiðjum í safninu og hluti þess afraksturs er einnig til sýnis.

Í dag kl. 15:30 munu Hörður Friðþjófsson gítarleikari og Erla Kristín Hansen skapa jólastemmningu í safninu með því að flytja jólalög í kaffistofunni. Einnig verður jólagluggi Hveragerðisbæjar opnaður við safnið og börnum og fjölskyldum þeirra boðið að teikna og mála myndir í tengslum við það tákn sem jólaglugginn kynnir.

Þar með lýkur sýningum þessa árs í Listasafni Árnesinga. Aldrei hafa fleiri gestir heimsótt safnið og hefur aðsóknin um það bil fimmfaldast á síðustu fimm árum.