Sýningalok og „krass-kúrs“ í strætislist

Sýningarnar „Til sjávar og sveita“ þar sem verk eftir Gunnlaug Scheving eru til sýnis og „Slangur(-y)“ þar sem verk eftir Söru Riel eru til skoðunar eru nú að renna sitt skeið í Listasafni Árnesinga og er síðasti sýningardagur í dag.

Verk Gunnlaugs koma öll úr safneign Listasafns Íslands og eru ýmist risastór málverk eða fjöldi frumdraga og undirbúningsverka þar sem viðfangefnið er vinna til sjós og ævintýri til sveita. Verk Söru eru ljósmyndir af graffítí-verkum sem hún vann víða um land á árinu 2006 og hafa þau aldrei verið sýnd saman áður.

Í dag kl. 16, mun Sara fjalla almennt um sögu, þróun og stöðu graffiti/strætislistar í heiminum. Hvernig varð þessi hreyfing til? Hverjir voru upphafsmenn? Hvaða áhrif hefur hún haft?

Listasafn Árnesinga sem er í eigu allra sveitarfélaganna í Árnessýslu er staðsett að Austurmörk 21, Hveragerði. Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir.

Fyrri greinÆgir vann baráttuna um Suðurland
Næsta greinRagnar fékk brons um hálsinn