Sýning Gunnars stendur út mars

Gunnar Gränz. sunnlenska.is/Sigmundur Sigurgeirsson

Gunnar Gränz á Selfossi, sýnir þessa dagana myndlist með vatnslitum og blandaðri tækni í Listagjánni í Bókasafninu á Selfossi.

„Gamalt og nýtt er heimilið getur prýtt,“ segir Gunnar um sýninguna, sem er opin á afgreiðslutíma bókasafnsins og stendur út marsmánuð.

Þær myndir sem Gunnar sýnir nú eru frá ýmsum stöðum. Þar leikur hann sér með allskonar liti og fögur form. Hann hugsar til raun, annarrar og þriðju víddarinnar, sem tómið býður uppá að eigin sögn.

„Það er alltaf gaman að fást við það sem horfið er og það sem ennþá er, og það sem framtíðin ber í tóminu. Það veit enginn hvað bíður okkar,“ segir Gunnar.

Gunnar Gränz er fæddur í Vestmannaeyjum árið 1932 og flutti á Selfoss í þá Sandvíkurhreppi árið 1942. Hann hefur búið þar æ síðan.

Gunnar var stofnandi að Myndlistarfélagi Árnessýslu sem fagnar 35 árum á þessu ári. Hann er klassískur alþýðulistamaður sem málar sér til ánægju og lífsgleði þeirri sem finnst í formi litanna á lífsleiðinni.

Fyrri greinKonur á vettvangi karla
Næsta greinMílan missti af úrslitakeppninni