Sýning fyrir börn á öllum aldri

Ekki snerta jörðina! er farandssýning sem opnar í Sjóminjasafninu á Eyrarbakka í dag 11. ágúst.

Sýningin er samtímasýning og þar má sjá brot af leikjum barna í dag. Hún er öll á forsendum barna. Hægt er að snerta, skoða og leika.

Á sýningunni gefur að líta afrakstur rannsóknar sem Byggðasafn Árnesinga tók þátt í ásamt sjö öðrum söfnum á landsvísu, Þjóðminjasafni Íslands, Árbæjarsafni, Lækningjaminjasafni Íslands, Byggðasafni Reykjanesbæjar, Minjasafninu á Akureyri, Minjasafni Egilstaða og Þjóðfræðistofu. Rannsóknin miðaðist við að rannsaka leiki 10 ára skólabarna þar sem börnin sjálf voru virkir þátttakendur. Á Suðurlandi voru það börn í Flóaskóla og Barnaskólanum á Eyrarbakka og Stokkseyri sem lögðu verkefninu lið.

Niðurstöður rannsóknarinnar voru margþættar en sýndi glöggt að börn er mjög frjó í leik og eru t.d. alls ekki hætt að leika sér úti. Fótbolti reyndist allra vinsælasti leikur barna um allt land og þó ekki sé hægt að sparka bolta á sýningunni er hægt að spila fótboltaspil.

Fjölskyldufólk er hvatt til að koma á þessa sýningu og minnt er á að ókeypis er fyrir skólahópa og börn í fylgd með foreldrum. Sýningin stendur fram í október.

Fyrri greinHugmyndaleitin gengur vel
Næsta greinFuglasýning í Listagjánni