Sýning fyrir alla sem kunna að meta kökur

Guðmunda bakar súkkulaðiköku með kartöflum fyrir sýningaropnunina. Ljósmynd/Aðsend

Sýningin Bækur og bakkelsi opnar í Húsinu á Eyrarbakka á morgun, laugardaginn 7. september kl. 16:00.

Sýningin er unnin af Héraðsskjalasafni Árnesinga og er útgangspunktur hennar handskrifaðar uppskriftabækur sem varðveittar eru á skjalasafninu.

 Mikilvæg heimild
„Sýningin er byggð upp í kringum uppskriftabækur fjögurra kvenna. Það að skoða uppskriftabækur getur sagt manni ótrúlega margt um tíðaranda, tísku, aðgang að hráefni og jafnvel fjölskyldustærð,“ segir Guðmunda Ólafsdóttir, skjalavörður á Héraðsskjalasafni Árnesinga, í samtali við sunnlenska.is.

„Til þess að setja meira kjöt á beinin fjöllum við líka um sögu baksturs og húsmæðrafræðslu á Suðurlandi. Sýningin samanstendur af texta og ljósmyndum frá Héraðsskjalasafninu en er svo skreytt með munum frá Byggðasafni Árnesinga. Á sýningaropnuninni verður svo boðið uppá bakkelsi sem er bakað er eftir uppskriftunum í uppskriftabókunum,“ segir Guðmunda sem mun sjálf sjá um að baka allt bakkelsið, enda húsmæðraskólagengin eins og hún segir sjálf frá.

Upplifunin mikilvæg
Guðmunda segir að hugmyndin að sýningunni hafi kviknað þegar hún var í námi í safnafræði í Háskóla Íslands. „Það var sífellt verið að hamra á því að gestir safna hefðu meiri áhuga á því að upplifa heldur en að vera mataðir af upplýsingum. Þess vegna langaði mig alltaf að setja upp sýningu þar sem horft væri á upplifunarþáttinn. Það getur verið ansi erfitt að finna nothæfan flöt fyrir slíkri sýningu á skjalasafni þar sem safnkosturinn er að mestu pappírsskjöl og ljósmyndir.“

„Eins og flestir þá eru starfsmenn Héraðsskjalasafns Árnesinga miklir sælkerar og hafa áhuga á hverskyns bakkelsi. Það var þess vegna í einum kaffitímanum sem sú hugmynd kom upp að útbúa sýningu þar sem gestir fengju einfaldlega að bragða á sögunni,“ segir Guðmunda.

Ingileif Jónsdóttir í Steinskoti á Eyrarbakka að steikja pönnukökur. Ljósmynd/Jóhann Þór Sigurbergsson.

Kökur í boði á opnunardaginn
Guðmunda segir að hugmyndin hafi fyrst verið að hafa kökur í boði alla sýningadagana. „En við sáum framá að það yrði full mikið af hinu góða svo það verða bara kökur í boði á sýningaropnunin og svo kannski aftur í lok sýningarinnar ef við erum í stuði. En uppskriftirnar munu liggja frammi fyrir gesti að sjá svo við hvetjum fólk til að baka þessar kökur heima hjá sér.“

Að sögn Guðmundu er sýningin fyrir alla þá sem hafa áhuga á því að baka eða borða kökur. „Ég held að allir geti fundið sig í öðrum hvorum flokknum.“

Við á Héraðsskjalasafni Árnesinga höfum reynt að útbúa sýningar annað hvert ár og hefur það tekist vel með dyggum stuðningi Uppbyggingarsjóðs Suðurlands. Við höfum gert þær þannig úr garði að þær geti ferðast á milli staða í sýslunni og þær hafa t.d. farið á margar bæjarhátíðir. Það er okkar von að þessi sýning muni fá að hanga víða um Árnessýslu þegar fram líða stundir,“ segir Guðmunda.

Ný uppskriftabók verður til
Þess má geta að á sýningunni mun liggja frammi óútfyllt uppskriftabók þar sem gestir fá tækifæri til þess að handskrifa inn sínar uppáhalds kökuuppskriftir. Að sýningu lokinni mun þessi nýja uppskriftabók fara til varðveislu á Héraðsskjalasafn Árnesinga þar sem hún mun verða heimild til framtíðar um bakstursmenningu ársins 2019. Við hvetjum þess vegna alla til að mæta á staðinn með góða uppskrift í kollinum og bæta henni í bókina,“ segir Guðmunda.

Guðmunda segir að það hafi verið mjög gaman að gera sýningu þar sem skjöl kvenna eru í forgrunni. „Það eru mun fleiri skjöl frá körlum en konum varðveitt á Héraðsskjalasafninu en það er eitthvað sem við vonumst til að breytist í framtíðinni, enda skjöl kvenna ekkert ómerkilegri en skjöl karla,“ segir Guðmunda að lokum.

Facebook-viðburður sýningarinnar

Fyrri greinHeitavatnslaust í Þorlákshöfn í næstu viku
Næsta greinHengilshlaupið ræst í kvöld