Syngjandi jólatréð frá Heimi frænda ekki í uppáhaldi

Örvar Rafn Hlíðdal. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Örvar Rafn Hlíðdal svaraði nokkrum jólaspurningum fyrir sunnlenska.is.

Hvort ertu meiri skröggur eða jólaálfur? Ég er allan daginn jólaálfur. Ég byrja örugglega of snemma á jólalögum og hlakka of mikið til. Held reyndar að ég sé bara almennt pirrandi álfur, lífið er ein tilhlökkun fyrir mér.

Uppáhalds jólasveinn? Enginn sérstakur í uppáhaldi, en ef ég væri jólasveinn þá væri ég að öllum líkindum Ketkrókur.

Uppáhalds jólalag? Þau eru svo mörg, fer allt saman eftir stemningu. Þegar eldað er í rólegheitum þá kveiki ég á Jólin eru okkar með Valdimar og Bríeti. En þegar suðan kemur upp á skipti ég yfir á Jólin eru að koma með Jónsa.

Uppáhalds jólamynd? Get verið grjótharður og sagt Die Hard. Er bara ekki grjótharður og segi því Love Actually. Það er fyrsta myndin sem við Unnur fórum saman á í bíó og mér þykir mjög vænt um þá mynd.

Uppáhalds jólaminning? Held það séu bara allar litlu jólahefðirnar sem við fjölskyldan í Forsæti 3 höfum tileinkað okkur síðustu ár.

Uppáhalds jólaskraut? Allavega ekki syngjandi jólatréð sem sonur minn fékk gefins frá Heimi frænda! Ætli það séu ekki bara stytturnar af íslensku jólasveinunum. Þeir koma með ákveðna stemningu inn í stofu hjá okkur.

Jólagjöfin gleðilega frá Heimi frænda.

Minnistæðasta jólagjöfin? Held ég hafi verið 18 eða 19 ára þegar Unnur gaf mér Playstation 3 leikjatölvu í jólagjöf. Það var huge á þeim tíma! Hin stóru FIFA jól.

Hvað finnst þér ómissandi að gera fyrir hver jól? Fjölskyldustundirnar gefa mest, vera róleg heima og njóta þess að vera saman.

Hvað er í jólamatinn? Hamborgarhryggur upp á hefðina og léttreyktur lambahryggur fyrir gæðin.

Ef þú ættir eina jólaósk? Þetta er mjög erfið spurning. Það er svo margt sem skiptir öllu máli. Held ég nýti samt óskina í léttreykta lambahrygginn. Vil hafa hann fullkominn.

Fyrri greinJólahjólið minnisstæðast
Næsta greinGul viðvörun vegna snjókomu