Synda selir – ný bók frá Steini Kárasyni

Steinn Kárason og kápumynd nýju bókarinnar.

Steinn Kárason, rithöfundur, hefur sent frá sér bókina Synda selir. Þetta er fimmta bók Steins sem er mörgum kunnur fyrir garðyrkjubækur sínar og tónlist.

Synda selir hefur að geyma sjö snjallar smásögur sem gerast á Íslandi og erlendis. Sagt er frá ungum dreng sem gefur skyggnigáfu sína upp á bátinn, Danmerkurdögum með skáldlegu ívafi, gamalli konu með göngugreind, tímaflakki milli heimsálfa, sundfélögum sem leysa lands- og heimsmálin í legvatni, vinskap manna með ólíka kynhneigð. Enn fremur pólitískum mannaráðningum og kynbótum á mönnum sem hljóta óvæntan endi. Ekki komast allir lifandi frá þeim ósköpum.

Með þessu smásagnasafni kemur glöggt í ljós frumleiki Steins í sagnagerð og góð tök á málinu. Tónninn er hlýlegur og glettinn og frásögnin beinir huga lesanda inn á við – að óljósum mörkum skáldskapar og raunveruleika.

Bókin er innbundin, 143 bls. að stærð og kápumyndin er eftir listmálarann Elías B.

Fyrri greinFundur á Akureyri um hættulega úrelta stjórnarskrá Íslands
Næsta greinGul viðvörun vegna snjókomu