„Svolítið persónulegir tónleikar“

Lay Low.

Næstkomandi laugardagskvöld heldur tónlistarkonan Lay Low tónleika á Hendur í höfn í Þorlákshöfn.

„Það vill svo til að ég bý í Ölfusinu og því hefur lengi legið í loftinu að spila á Hendur í Höfn,“ segir Lay Low í samtali við sunnlenska.is.

„Loksins fann ég góða dagsetningu sem hentaði. Ég er auk þess að vinna í nýju efni þannig að það lá vel við að halda tónleika þar en hef ekki mikið verið að spila að undanförnu. Það gerist oft eitthvað skemmtilegt þegar ég er ein að spila á svona litlum og fallegum stað,“ segir Lay Low.

Nýtt efni í bland við gamalt
Að sögn Lay Low leggjast tónleikarnir á laugardaginn vel í hana. „Ég mun taka lög úr öllum áttum. Ég hef gefið út fjórar plötur og spila sennilega eitthvað af þeim öllum sem er allt svolítið úr ólíkum áttum. Ég er að vinna í nýjum lögum og mun örugglega prufukeyra eitthvað af þeim. Og svo auðvitað lög sem ég hef sungið með öðrum eins og yndislega lagið „Þannig týnist tíminn“ sem ég var svo heppin að fá að syngja með Ragnari Bjarnasyni fyrir nokkrum árum síðan.“

Ein með gítarinn
„Þeir sem hlusta á blús, kántrý eða folk tónlist geta verið vissir um að heyra eitthvað í þeim dúr. Ég syng bæði á íslensku og ensku, þannig þetta er svolítið bland í poka.“

„Ég verð ein með gítarinn og því verða þetta lágstemndir og kannski svolítið persónulegir tónleikar. Ég segi kannski aðeins frá lögunum og fer yfir ferilinn með tónum og tali. Það er enn til eitthvað af miðum á tix.is og ég mæli með að fólk næli sér í miða ef það hefur áhuga á að koma og hitta mig í Þorlákshöfn núna á laugardagskvöldið,“ segir Lay Low að lokum.

Facebook-viðburður tónleikanna

 

Fyrri grein„Besta lið sem Selfoss hefur átt“
Næsta greinRagnheiður ráðin forstöðumaður