Svífa um á bleiku skýi

Hljómsveitin Fókus fagnar sigri í Músíktilraunum. Ljósmynd/Músíktilraunir

Hljómsveitin Fókus frá Hornafirði kom sá og sigraði á úrslitakvöldi Músíktilrauna í Norðurljósasal Hörpu í gærkvöldi.

Meðlimir hljómsveitarinnar koma frá Hornafirði og Selfossi. Það eru Hornfirðingarnir Amylee Trindade, Alexandra Hernandez, Anna Lára Grétarsdóttir og Pia Wrede og Selfyssingurinn Arnbjörg Ýr Sigurðardóttir, Abba, sem er trommuleikari hljómsveitarinnar. Þess má geta að Pia er þýskur skiptinemi á Höfn og harla ólíklegt að erlendir skiptinemar hafi áður farið með sigur af hólmi í Músíktilraunum.

Abba, trommuleikari hljómsveitarinnar Fókus. Ljósmynd/Músíktilraunir

Af hverju ekki?
„Hljómsveitin varð til útfrá jólatónleikum Sinfóníuhljómsveitar Suðurlands, þar sem Alexandra og Amylee komu frá Höfn á Selfoss til að spila. Þar fréttu þær af mér og þær vantaði trommara í þessa litlu stelpuhljómsveit, Fókus, og ég sagði bara af hverju ekki?”, segir Abba í samtali við sunnlenska.is

Hún lætur ekki „ógeðslega langar og leiðinlegar strætóferðir,“ milli Selfoss og Hornafjarðar stoppa sig til að mæta á æfingar og hljómsveitin uppskar ríkulega í gærkvöldi.

„Planið var alltaf að keppa í Músíktilraunum en við áttum ekki von á því að vinna. Ég sagði endalaust að við værum bara mættar til að hafa gaman því án gríns þá hélt ég aldrei að við myndum vinna,“ segir Abba ennfremur og bætir við að tilfinningin sé góð.

„Núna svífum við bara um á bleiku skýi, ég trúi þessu ekki ennþá, sjokkið var svo mikið,“ segir Abba og bætir við að vonandi muni Fókus gefa út plötu í framhaldinu.

Fókus á sviðinu á úrslitakvöldi Músíktilrauna. Ljósmynd/Músíktilraunir

Verðlaunaðar fyrir söng og píanóleik
Meðlimir Fókus hlutu fleiri verðlaun á úrslitakvöldinu en Alexandra og Amylee voru valdar bestu söngvararnir og Anna Lára besti hljómborðsleikarinn.

Tólf hljómsveitir komust í úrslit í Músíktilraunum, annað sætið hreppti TORFI og þriðja sætið hlaut Dóra & Döðlurnar. Marsipan tók titilinn Hljómsveit fólksins.

Hljómsveitin Fókus, sigursveit Músíktilrauna. Ljósmynd/Músíktilraunir
Fyrri greinTveir Íslandsmeistaratitlar á Selfoss
Næsta greinÍslandsmet og HM lágmörk hjá Snæfríði