Sviðaveisla á sunnudag

Sviðaveisla Hrútavina verður í Íþróttahúsinu á Stokkseyri sunnudaginn 2. október kl. 20.

Það er Öldungaráðið á Stokkseyri, sem er deild í Hrútavinafélaginu, sem boðar til veislunnar.

Veislan verður í Íþróttahúsinu á Stokkseyri. Boðið verðu upp á bæði heit og köld svið sem og viðeigandi meðlæti. Kvenfélagið á Stokkseyri er samstarfsaðili Hrútavina og sér um allt sem að matseldinni snýr.

Skráningarlistar liggja frammi í Shell-Skálkanum á Stokkseyri og eru allir velkomnir. Aðgangseyrir er aðeins kr. 2.500.

Í Sviðaveislunni verður farið yfir hið gjöfula sumar til lands og sjávar sem senn er liðið. Mál líðandi stundar krufin og horft til framtíðar að hætti Hrútavina sem aldrei hefur verið eins mikil þörf á og einmitt nú.

Hrútavinir hafa verið orðlagðir fyrir vandaðar og innihaldsríkar orðuveitingar. Nú verða í fyrsta sinn veitt umhverfisverðlaun Hrútavina og verða þau afhent á Sviðaveislunni.