Sveitasynir í stúdíói

Ómar Diðriks og Sveitasynir láta ekki deigann síga en hljómsveitin er við upptökur á nýju lagi þessa dagana auk þess að æfa fyrir tónleika með Karlakór Rangæinga.

Á milli þess ferðast hún um landið þvert og endilangt og heldur tónleika.

„Við erum að taka upp lag þessa dagana, raunar á bara eftir að taka upp blásarahlutann en til þess höfum við fengið þrjá félaga úr Stórsveit Suðurlands,“ segir Ómar í samtali við Sunnlenska.

„Hugmyndin er að safna í plötu, en við látum það taka sinn tíma,“ segir hann. Tónlistin sem þeir spila er bæði eigið efni, sem og blanda af klassískum íslenskum og erlendum lögum sem allir þekkja.

Framundan er verkefni með Karlakór Rangæinga en Ómar og félagar hans undirbúa þessa dagana tónleika með kórnum sem haldnir verða í nýju menningarhúsi í safnaðarheimilinu á Hellu þann 29. október næstkomandi.

Guðmundur Eiríksson píanóleikari hljómsveitarinnar hefur raddsett lög eftir Ómar sem kórinn mun syngja ásamt bandinu, en á tónleikunum mun hljómsveitin spila nokkur lög ein, kórinn mun svo flytja níu lög með undirspili hljómsveitarinnar og þrjú lög verða flutt þar sem kórinn og hljómsveitin syngja saman.

„Þarna flytur kórinn nokkra standarda sem þeir hafa verið með á undanförnum árum en við setjum okkar mark á flutninginn og léttum aðeins prógrammið,“ segir Ómar.