Sveitahátíð með rótgrónu sniði

Ljósmynd/Aðsend

Laugardaginn 23. ágúst verður hin árlega sveitahátíð Grímsævintýrin á Borg haldin með glæsibrag. Hátíðin hefst klukkan 13:00 og stendur til kl 16:00.

„Við hvetjum gesti til að taka daginn frá og njóta sveitastemningar, samveru og gleði með fjölskyldu og vinum. Grímsævintýrin á Borg hafa ávallt verið vettvangur samverustundar og jákvæðrar upplifunar – og það verður engin undantekning á því, í ár,“ segir í tilkynningu frá Kvenfélagi Grímsneshrepps.

Hátíðin, sem er skipulögð af Kvenfélagi Grímsneshrepps, hefur glatt gesti í áratugi og nýtur mikillar vinsælda meðal heimamanna sem og gesta hvaðanæva að. Þar ber hæst tombólan fræga, sem hefur verið ómissandi hluti hátíðarinnar allt frá árinu 1926. Yfir 2.500 vinningar eru á tombólunni og vinningur á öllum miðum.

Tombólan fræga hefur verið fastur liður í hreppnum allt frá árinu 1926. Ljósmynd/Aðsend

Hátíðin er sérstaklega hönnuð fyrir fjölskyldur og býður upp á fjölbreytta og líflega dagskrá fyrir alla aldurshópa. Dagskráin í ár inniheldur meðal annars Brúðubílinn með Lilla í fararbroddi, kaffisölu og heimabakað góðgæti í Blúndukaffinu, markað í félagsheimilinu, Taiko trommusmiðju með Halla Valla, kynningu á búnaði og tækjum frá Hjálparsveitinni Tintron, klifurvegg fyrir ævintýragjarna gesti, candyfloss, andlitsmálningu, hópsöng og gleði fyrir börnin.

Frítt er í sund á meðan á hátíðinni stendur og tjaldsvæði er á staðnum fyrir þá sem vilja dvelja yfir helgina. Aðgangur að dagskrá hátíðarinnar er ókeypis og allir hjartanlega velkomnir.

Ljósmynd/Aðsend
Fyrri greinBryndís Embla bætti eigið Íslandsmet
Næsta greinKFR þarf enn að bíða – Stokkseyringar fallnir