Sveifludanshátíðin „Lindy on Ice“ haldin í þriðja sinn

Ljósmynd/Aðsend

Alþjóðlega sveifludanshátíðin Lindy on Ice verður haldin í þriðja skipti á Flúðum og í Reykjavík 13.-16. febrúar næstkomandi.

Á hátíðinni verður boðið upp á sóló-djass og lindy hop kennslu fyrir byrjendur og lengra komna undir leiðsögn fjögurra af fremstu sveifludönsurum heims. Auk þess munu fremstu sveifludjass-hljómsveitir landsins leika fyrir dansi.

Auk danskennslu og dansleikja verður gestum hátíðarinnar m.a. boðið upp á útsýnisferðir um helstu kennileiti Suðurlands, slökun í heitum náttúrulaugum og að taka þátt í alíslensku þorrablóti.

Hátíðin fer fram í félagsheimilinu á Flúðum 13.-15. febrúar en lokadansleikur hátíðarinnar verður haldinn í Iðnó í Reykjavík sunnudagskvöldið 16. febrúar. Dansleikirnir verða opnir öllum almenningi.

Að baki Lindy on Ice stendur dansskólinn Sveiflustöðin. Tilgangur hátíðarinnar er einkum og sér í lagi að stuðla að virkara sveiflutónlistar- og sveifludans-samfélagi á Íslandi og efla með því menningarlegan fjölbreytileika.

Allir eru velkomnir á hátíðina, hvort heldur byrjendur með litla sem enga dansreynslu eða lengra komnir.

Fyrri greinFlæðir að orlofshúsum í Vaðnesi
Næsta greinMikilvæg stig í súginn