SurBlingBling meðal keppenda í Rímnaflæði

Björgvin Svan Mánason, SurBlingBling, keppir fyrir Skjálftaskjól í Hveragerði. Ljósmynd/Aðsend

Björgvin Svan Mánason, betur þekktur sem SurBlingBling, úr félagsmiðstöðinni Skjálftaskjóli í Hveragerði, er einn átta keppenda í Rímnaflæði 2021, rappkeppni unga fólksins, sem fer fram á netinu um helgina í samstarfi við UngRúv.

Auk SurBlingBling keppa efnilegir rapparar úr félagsmiðstöðvum frá Reykjavík, Kópavogi, Grindavík og Akureyri.

Samfés, sem stendur fyrir Rímnaflæði, hvetur alla landsmenn á tímum hertra sóttvarnaraðgerða að styðja við unga fólkið og horfa á frábær atriði gríðarlega efnilegra rappara. Úrslitin munu ráðast í netkosningu og er hægt að taka þátt í kosningunni hér.

Rímnaflæði hefur skapað sér fastan sess í dagskrárliðum félagsmiðstöðva um leið og hún vekur áhuga ungmenna á rappi og gefur því jákvæða umfjöllun. Keppendur í Rímnaflæði eru á aldrinum 13-16 ára og er skilyrði að textar séu samdir af keppendum, en lög og taktar þurfa ekki að vera frumsamin.

Fyrri greinUngmennin skelltu Fjölni á útivelli
Næsta greinStartbyssu stolið í innbroti á Selfossi