Sunnudagsspjall með Ólafi

Ólafur Gíslason. Ljósmynd/Listasafn Árnesinga

Nú fækkar sýningardögum innsetningarinnar Huglæg rými í Listasafni Árnesinga í Hveragerði.

Síðara sunnudagsspjall höfundarins Ólafs Gíslasonar verður sunnudaginn 17. mars kl. 15, þegar hann gengur um sýninguna með gestum, segir frá og svarar spurningum.

Innsetningin samanstendur af kvikmynd sem varpað er á sex veggi, vatnslitaverkum, litlum misstórum skúlptúrum og milliveggjum sem á áhugaverðan hátt mynda eitt verk sem Ólafur sviðsetur í þrjá meginsali safnsins og í anddyrið.

Sýningin hverfist öll um nágranna Ólafs í Flóanum, Sigurð Guðmundsson á Sviðugörðum og er sprottin af samræðum þeirra tveggja. Handrit kvikmyndarinnar byggist á samtölum milli Ólafs og Sigurðar, en Ólafur lætur fimm einstaklinga segja frá sem Sigurður. Þeir eru auk Sigurðar sjálfs, einn lærður leikari, Þór Tulinius, og þrír sveitungar, ungur piltur, ungur maður og kona, þau Ágúst Þorsteinsson, Guðjón Helgi Ólafsson og Kristín Ólafsdóttir.

Sýningin hefur fengið afar góð viðbrögð gesta, m.a. fyrir vandaða listræna framsetningu, ríkt innihald og hún vekur einnig áhugaverðar vangaveltur sem erindi eiga í umræður samtímans svo sem um sjálfbærni.

Ólafur Sveinn Gíslason lauk myndlistarnámi á Íslandi 1983 og og hélt þá til Þýskalands í framhaldsnám. Þar bjó hann síðan og starfaði við myndlist í um 25 ár en fljótlega eftir að hann tók við stöðu prófessors í myndlistardeild Listaháskóla Íslands flutti hann aftur heim og frá árinu 2015 hefur hann verið með vinnustofu á Þúfugörðum í Flóa.

Síðasti sýningardagur innsetningarinnar er 31. mars næstkomandi.

Safnið er opið fimmtudaga – sunnudaga kl. 12-18. Aðgangur að safninu er ókeypis og allir velkomnir – líka á spjallið. Sýningin er styrkt af Myndlistarsjóði, Myndstefi og Uppbyggingasjóði Suðurlands.

Fyrri greinFjaðrárgljúfur lokað fram í júní
Næsta greinFjóla að komast í fyrra form