Næstu tónleikar í tónleikaröðinni Sunnlenskur tónblær verða haldnir í Víkurkirkju í Mýrdal fimmtudaginn 30. október klukkan 17:30.
Þar munu Jón Bjarnason, dómorganisti í Skálholtskirkju og sópransöngkonan Alexandra Chernyshova flytja ljúfa og innblásna tóna.
Á efnisskránni eru verk fyrir sópran og orgel eftir Caccini, Rachmanínov og Mozart, auk einleiks á orgel eftir Bach. Um er að ræða sígild meistaraverk þar sem andleg dýpt og tónlistarfegurð mætast.
Aðgangur er ókeypis fyrir tónlistarnema og börn yngri en tólf ára. Almennt miðaverð er 2.000 krónur.

