Sunnlenskur söngleikur frumsýndur í Hörpu

Sunnudaginn 1. febrúar kl. 13 verður frumsýndur splunkunýr íslenskur söngleikur fyrir börn, „Björt í sumarhúsi“, í Hörpu á tónlistarhátíðinni Myrkir músíkdagar. Tónlistin er eftir Elínu Gunnlaugsdóttur við texta Þórarins Eldjárns sem byggir á ljóðum úr bókinni „Gælur, fælur og þvælur”.

Sagan segir frá barni í pössun hjá afa sínum og ömmu í sumarbústað en þar er lítið við að vera og barninu leiðist. Í bústaðnum eru engin númtímatæki eins og tölvur og snjallsímar. Afinn og amman reyna að hafa ofan af fyrir barninu, en það gerist æ óþægara. Glói gullfiskur, fiskifluga, könguló, draugur og fleiri koma við sögu en að lokum finnast bækur í bústaðnum og barnið kemst í ró. Verkið er ærslakennt og er tónlistin í anda verksins, létt og leikandi.

Í hlutverki Bjartar er Una Ragnarsdóttir (10 ára), Valgerður Guðnadóttir fer með hlutverk ömmunar, Jón Svavar Jósefsson með hlutverk afans og Bragi Bergþórsson er í hlutverki hlaupagikks, ókindar og draugs. Hljóðfæraleikarar í sýningunni eru Ármann Helgason á klarinett, Kjartan Guðnason á slagverk, Vignir Þór Stefánsson á píanó og Birgir Bragason á kontrabassa, en söngleiknum leikstýrir Ágústa Skúladóttir. Kristína Berman sér um hönnun leikmyndar og búninga og ljósahönnun er í höndum Jóhanns Bjarna Pálmasonar.

Björt í sumarhúsi er samstarfsverkefni Töfrahurðar og Óperarctic félagsins.

Fyrri greinTónleikar á Bókakaffinu
Næsta greinSelfoss vann með yfirburðum og metin halda áfram að falla