Sunnlenskir kvikmyndadagar í Selfossbíói

Sunnlenskir kvikmyndadagar verða haldnir í Selfossbíói dagana 20. til 23. apríl í tengslum við menningarhátíðina Vor í Árborg. Tilgangurinn með þessum dögum er sá að kynna og gefa fólki kost á því að sjá fáséðar myndir í kvikmyndahúsi, sem allar hafa það sameiginlegt að hafa tengingu við Suðurland.

Verkefnastjóri kvikmyndadaga er Gunnar Sigurgeirsson og er þetta þriðja árið sem þessir dagar eru haldnir í samstarfi við SASS, Selfossbíó og Sveitarfélagið Árborg.

Fyrsta sýningin verður á Sumardaginn fyrsta þegar mynd Páls Seingrímssonar, Undur vatnsins, birtist á hvíta tjaldinu. Síðan verða Vestmannaeyjar og Ginklofin í forgrunni og þá hugvit í Villingaholtshreppi, fjárleitir á Gnúpverjaafrétti, fjallamenska á Fimmvörðuhálsi og rafmagnssmíði í Skaftafellssýslu.

Á lokadeginum verður meistari Þór Vigfússon á sagnaslóðum Flóans og síðan líkur þessum kvikmyndadögum í Veiðivötnum. Framleiðendur og kvikmyndagerðarmenn gáfu góðfúslegt leyfi til sýninga á myndunum og eiga þeir þakkir skyldar fyrir sitt framlag.

Áhugasamir sýningagestir eru hvattir til að tryggja sér miða tímalega í afgreiðslu Selfossbíós því aðeins eru 50 sæti í boði á hverja sýningu og frítt inn.