Sunnlenskar bækur söluhæstar

Sunnlenskar bækur seldust best í Sunnlenska bókakaffinu á árinu en metsölubók ársins er Sumarlandið eftir Guðmund Kristinsson.

Sunnlendingar virðast vera spenntir fyrir því hvernig menn hafa það eftir að þeir eru komnir yfir móðuna miklu en bók Guðmundar kom út fyrir jólin í fyrra og var endurprentuð á þessu ári.

Sú skáldsaga sem selst hefur best þetta árið er Gamlinginn eftir Svíann Jonas Jonasson. Bókin hefur varla stoppað í hillunum eftir að hafa fengið glimrandi dóma í Kiljunni í haust.

Vinsælustu ljóðabækur ársins eru Kanill eftir Sigríði Jónsdóttur í Arnarholti og Bréf til næturinnar eftir Kristínu Jónsdóttur.

Íslenskur fuglavísir eftir Jóhann Óla Hilmarsson á Stokkseyri kom út síðsumars og hefur hann selst mjög vel. Þá hefur bókin Íslenskar lækningajurtir eftir Önnu Rósu Róbertsdóttur verið vinsæl og útivistarbókin Góða ferð eftir Helen Garðarsdóttur og Elínu Magnúsdóttur sömuleiðis.

Hávamál endurort af Þórarni Eldjárn og myndskreytt af Kristínu Rögnu Gunnarsdóttur tróna efst á listanum yfir söluhæstu barnabækurnar og ævisaga Sigurðar dýralæknis var vinsælasta bókin í flokki ævisagna.

Af þessu má sjá að það eru Sunnlendingar; Guðmundur, Sigríður, Jóhann Óli, Anna Rósa, Elín og Sigurður, sem hafa vinningin í sölunni hjá Sunnlenska bókakaffinu og okkur og langar mig að bæta einum við sem seldi líka vel en það er höfundur Selfossbókarinnar, Gunnar Marel Hinriksson. Selfyssingar hafa tekið bókinni vel og það er kannski ekkert skrýtið því hún sýnir bæinn þeirra í nýju og skemmtilegu ljósi.