Sungið til styrktar munaðarlausum börnum

Í dag kl. 14 verða haldnir styrktartónleikar í Hveragerðiskirkju fyrir munaðarlaus börn í Kongó.

Fram koma Davíð Ólafsson og Stefán Stefánsson, Gísli og Kristjana Stefánsbörn, Söngsveit Hveragerðis og Öðlingarnir frá Hvolsvelli. Miðaverð er 2000 kr. en 1500 fyrir aldraða og öryrkja.

Allt tónlistarfólkið gefur vinnu sína og rennur ágóðinn af tónleikunum til reksturs barnaþorps í Kongó á vegum Alþjóðlegu barnahjálparinnar, ICC. ICC eru samtök sem reka barnaþorp og starf fyrir munaðarlaus börn í á annan tug landa víðs vegar um heiminn.

Í barnaþorpinu í Kongó búa nú tæplega 160 börn sem flest urðu munaðarlaus í hinum svokölluðu Kongóstríðum í kjölfar þjóðarmorðanna í Rúanda og átökum sem blossað hafa upp ítrekað eftir að stríðunum lauk formlega. Þar búa þau í fjölskyldueiningum í umsjón innfæddra hjóna og ganga í skóla. Tilgangur tónleikanna í Hveragerði er að styrkja við daglegan rekstur barnaþorpsins.

Þetta er fjórða árið sem Alþjóðlega barnahjálpin stendur fyrir styrktartónleikum, en á síðasta ári voru tónleikarnir á Selfossi.

Allar nánari upplýsingar má finna á heimasíðu samtakanna www.internet.is/icc