Sungið á safnadeginum

Íslenski safnadagurinn er haldinn hátíðlegur í dag, sunnudag. Söfnin á Eyrarbakka og Stokkseyri taka vel á móti gestum sem og önnur íslensk söfn af öllu tagi.

Á Íslenska safnadaginn er ókeypis aðgangur í söfnin á Eyrarbakka.

Tónleikar verða í stássstofu Hússins á Eyrarbakka sem hefjast kl. 14. Gísli Stefánsson bariton syngur úr Íslenska söngvasafninu. Guðjón Halldór Óskarsson spilar undir á gamla píanóið.

Á Íslenska safnadaginn gefst gott tækifæri til að skoða sýninguna Fundað í Fjölni sem er að finna í borðstofu Hússins þar sem viðfangsefnið er Sýslunefnd Árnessýslu. Sýslunefndin hélt sinn árlega fund í apríl 1911 í Samkomuhúsinu Fjölni á Eyrarbakka og var að loknum fundi ljósmynduð með bárujárnklæddan húsvegg í bakgrunni. Skyggnst er í heim þessara 17 skeggjuðu karlmanna sem voru höfðingjar sinna sveita og hafa munir og margvíslegar staðreyndir um þá verið dregin fram.

Í forsal Sjóminjasafnsins á Eyrarbakka er ljósmyndasýningin Allir í leik. Einnig hafa munir úr fórum stofnanda safnsins Sigurðar Guðjónssonar á Litlu-Háeyri verið settir upp til sýningar.

Þuríðarbúð á Stokkseyri er opin að vanda en sjóbúðin er til minningar um horfna sjávarhætti og merka sjókonu.

Í Rjómabúinu á Baugsstöðum verða vélar gangsettar fyrir gesti. Þar er opið á laugardögum og sunnudögum í júlí og ágúst ár hvert kl. 13-18 og á öðrum tímum eftir samkomulagi. Aðgangseyrir kr. 500.

Nánar um dagskrá íslenska safnadagsins á landsvísu á síðunni www.safnarad.is.