Sumartónleikar í Skálholti í kvöld

Í kvöld kl. 20 flytur Bachsveitin í Skálholti Sinfóníu eftir C.P.E. Bach, Konsert fyrir pikkolóselló, tvö horn, strengi og fylgibassa ásamt þáttum fyrir tvö horn og strengi úr Tafelmusik eftir Telemann.

Sérstakir gestir á tónleikunum eru Sigurður Halldórsson sem leikur á pikkolóselló ásamt Ellu Völu Ármannsdóttur og Olivier Picon hornleikurum.

Fyrir tveimur árum flutti Bachsveitin í Skálholti „Concerto per viola” í A-dúr eftir ítalska tónskáldið Giuseppe Tartini (1692-1770). Nú er komið að hinum konsertinum sem Tartini samdi sem ekki er fiðlukonsert. Þetta er víólukonsert samkvæmt titli höfundarins. Að þessu sinni leika tvö horn með ásamt strengjunum og bassacontinuo-röddinni.

Konsert í Es-dúr fyrir tvö horn, strengi og fylgibassa er hluti af Tafelmusik nr. III eftir Telemann. Þessi flokkur markar hápunkt verka sem samin eru sérstaklega til þess að flytja undir borðhaldi. Telja má að „dinnertónlist” hafi byrjað að þróast strax á síðmiðöldum, en fyrstu heimildir um kammertónlistarflutning í nútímaskilningi eru m.a. undir borðhaldi aðalsfólks. Nokkuð ljóst er að þótt oft hafi verið hlustað af athygli hafi tónlistin stundum verið yfirgnæfð af samræðum, hnífaparaglamri og búkhljóðum ýmis konar. Hugtakið „Tafelmusik” og sambærileg orð um þess konar tónlist urðu til í Þýskalandi á 16. öld og varð þar með aðgreind frá kirkjutónlist og stofutónlist. Flokkar Telemanns, þrír talsins, innihalda hver um sig forleik og svítu, kvartett, konsert, tríó, einleiksverk og lokaþátt með sömu hljóðfærasamsetningu og upphafsforleikurinn. Má segja að Telemann hafi með snilldarlegum hætti náð að umbreyta fjölbreytileika í bragði, litum, framsetningu, áferð og umfangi hinna ýmsu rétta yfir í tónlistarlega upplifun.

Fyrri greinKrefjast aðgerða vegna ófremdarástands í löggæslumálum
Næsta greinAukið lögreglueftirlit um helgina