Sumartónleikar í Skálholti 50 ára í ár

Frá Sumartónleikum í Skálholtskirkju. Mynd úr safni.

Sumartónleikarnir í Skálholti er elsta barokktónlistarhátíð á Norðurlöndunum, og hefur verið haldin á hverju sumri síðan árið 1975. Hátíðin í ár hefst á morgun, laugardag og stendur til 13. júlí.

Stofnandi hátíðarinnar var Helga Ingólfsdóttir, sem var fyrsti semballeikari á Íslandi, og stjórnaði hún hátíðinni til ársins 1993, þegar hún þurfti að draga sig í hlé vegna veikinda. Á þessu sumri eru því merk tímamót, því sumartónleikarnir halda uppá 50 ára afmæli.

Benedikt Kristjánsson, listrænn stjórnandi og framkvæmdastjóri hátíðarinnar. Ljósmynd/Aðsend

„Á tónleikadagskrá hátíðarinnar er ber hæst að segja frá því, að frægasti semballeikari heims um þessar mundir, Jean Rondeau, mun koma og vera með einleikstónleika til heiðurs Helgu Ingólfsdóttur. Þetta verður mikill viðburður fyrir íslenskt tónlistarlíf,“ segir Benedikt Kristjánsson, listrænn stjórnandi og framkvæmdastjóri hátíðarinnar.

„Dagana á undan verður einleikstónleika-þema, þar sem nokkrir af okkar færustu tónlistarmönnum á Íslandi mun spreyta sig. Það verða Björg Brjánsdóttir, flautuleikari, Pétur Björnsson, fiðluleikari og Geirþrúður Anna Guðmundsdóttir, sellóleikari,“ bætir Benedikt við.

Björg Brjánsdóttir, flautuleikari. Ljósmynd/Gunnlöð Jóna

Á opnunartónleikum hátíðarinnar á morgun kl. 16 verður frumflutt nýtt verk eftir staðartónskáldið, Sigurð Sævarsson sem mun bera heitið Deus, Deus meus. Verkið verður flutt af Kordó kvartettinum, Cantoque ensemble, Benedikt Kristjánssyni, og stjórnandi verður Steinar Logi Helgason.

Angela Árnadóttir sér um viðburði fyrir börn og fjölskyldur, sem verða þrennir, og hún opnar einnig myndlistarsýningu. Síðast en ekki síst verður óperan Dido and Aeneas eftir Henry Purcell flutt á síðustu helgi hátíðarinnar. Þetta verður í fyrsta skipti sem ópera verður sett á svið á sumartónleikunum. Flytjendur verða Barokkbandið Brák, einvala við söngvara, og stjórnandi verður Halldór Bjarki Arnarsson.

Angela Árnadóttir sér um viðburði fyrir börn og fjölskyldur. Ljósmynd/Aðsend

Frá upphafi hátíðarinnar hafa allir viðburðir sumartónleikanna verið gjaldfrjálsir, og hátíðin einungis rekið sig á styrkjum frá hinu opinbera og fyrirtækjum, og frjálsum framlögum tónleikagesta.

Heimasíða Sumartónleika í Skálholti

Fyrri greinÞrjú sveitarfélög gefa út sameiginlega atvinnumálastefnu
Næsta greinEr með bráðaofnæmi fyrir metnaðarleysi