Sumartónleikar fengu Eyrarrósina

Sumartónleikar í Skálholti fengu afhenta Eyrarrósina við hátíðlega athöfn á Bessastöðum í dag.

Eyrarrósin er viðurkenning fyrir framúrskarandi menningarverkefni á landsbyggðinni og var sett á stofn af Listahátíð í Reykjavík, Byggðastofnun og Flugfélagi Íslands.

Verndari Eyrarrósarinnar er Dorrit Moussaieff forsetafrú og afhenti hún viðurkenninguna og verðlaunagrip eftir Steinunni Þórarinsdóttur, myndlistarkonu. Verðlaunaféð er 1,5 milljónir króna.

Fyrir utan Sumartónleikana í Skálholti voru tvö önnur verkefni tilnefnd til Eyrarrósarinnar, Hreindýraland, Egilsstöðum og Þórbergssetur, Hala í Suðursveit.