Sumartími á söfnunum

Sumartími er genginn í garð hjá söfnunum á Eyrarbakka, Húsinu og Sjóminjasafninu. Þar er opið alla daga kl. 11-18 og eftir samkomulagi á öðrum tímum.

Hið stórmerka 18. aldar hús er sem fyrr aðal aðdráttaraflið og í Sjóminjasafninu hinn einstaki gripur áraskipið Farsæll. Í borðstofu Hússins er sýningin Ljósan á Bakkanum um Þórdísi Símonardóttur ljósmóður og stormasama ævi hennar og í Assistentahúsinu örsýningin Handritin alla leið heim sem fjallar um Árna Magnússon og handritið Skáldskaparfræði. Í forsal Sjóminjasafnins er hægt að sjá á skjá ljósmyndir og sögu vélbáta frá Eyrarbakka.

Nýjasta viðbótin við Byggðasafn Árnesinga er sýning sem sett verður upp í haust í húsinu Kirkjubæ, sem stendur nokkra metra frá Húsinu. Byggðasafn Árnesinga keypti Kirkjubæ í árslok 2011 og þar verður sett upp sýning um heimili fólks um 1930.

Lýður Pálsson, safnstjóri, segir að tilgangurinn með kaupunum á Kirkjubæ hafi verið að útvíkka sýningarsvið safnsins og stækka safnasvæðið. „Kirkjubær er hérna rétt hjá Húsinu og er andstæða við hið stóra Hús. Kirkjubær er hálfgert kot. Hér ætlum við að hafa grunnsýningu um heimili fólks um 1930 þar sem markmiðið er að skapa skemmtilega og fræðandi sýningu fyrir alla fjölskylduna,“ segir Lýður en sem fyrr segir verður er stefnt að opnun sýningar í Kirkjubæ í haust.

Að sögn Lýðs er jöfn og stöðug umferð gesta að Byggðasafni Árnesinga og Sjóminjasafninu. „Fjöldi útlendinga fer vaxandi og það er í takt við allt annað í íslenskri ferðaþjónustu. Erlendir ferðamenn koma líka á Eyrarbakka og hér kynnast þeir gömlu íslensku þorpi með ríka sögu og þá sögu reynum við að kynna hér á sýningum bæði í Húsinu, Sjóminjasafninu og væntanlega fljótlega í Kirkjubæ,“ segir Lýður að lokum.

Fyrri greinNý göngubrú við Fláajökul opnar mikla möguleika
Næsta greinGestirnir hirtu stigin