Sumarlestur alla fimmtudaga í júní

Sumarlestur Bókasafns Árborgar á Selfossi hefst með pompi og prakt þann 6. júní kl. 13:00 og fyrsti gestur þessa sumars verður enginn annar en Gunnar Helgason rithöfundur.

Gunnar mun m.a. lesa úr bókunum Bannað að drepa og Amma slær í gegn! en sú síðarnefnda er glæný, kemur út 2. júní.

Sumarlesturinn fær nýtt þema á hverju ári og í ár verða barnabókahetjur heimsins í aðalhlutverki, en undanfarnda mánuði hefur einmitt staðið yfir samnefnt verkefni á safninu. Það verkefni miðar að því að safna barnabókum á öllum þeim 40 tungumálum sem töluð eru í leik- og grunnskólum Árborgar og ef allt fer eins og áætlað er verður því takmarki náð nú í júní.

Sumarlestur er ókeypis lestrarhvetjandi námskeið fyrir krakka í 3.–5. bekk. Börnin koma á bókasafnið einu sinni í viku í fjórar vikur þar sem þau fá skemmtilega fræðslu og taka þátt í lestrarhvetjandi uppákomum enda markmiðið að viðhalda lestrarhæfni og kynna ævintýraheim bóka fyrir börnunum.

Skráning í Sumarlestur er nauðsynleg og hægt er að skrá sig hér. Einnig er hægt að skrá þátttakendur í afgreiðslu bókasafnsins. Skráningu líkur 5. júní. Allar nánari upplýsingar um Sumarlesturinn er hægt að nálgast hér.

Fyrri greinTómas Valur efnilegasti leikmaður deildarinnar
Næsta greinBronsverðlaunahafi af Ólympíuleikunum stöðvaði Valgerði