Sumarlandið selst best

Bókin Sumarlandið eftir Guðmund Kristinsson er mest selda bókin í Sunnlenska bókakaffinu á Selfossi.

Í bókinni eru viðtöl við framliðna sem Guðmundur tók með hjálp Sigríðar Jónsdóttur, miðils. Guðmundur var í þriðja sæti metsölulistans í síðustu viku en er nú kominn í toppsætið.

Þar á eftir fylgir bók Arthúrs Björgvins Bollasonar, Lífsleikni Njálu. Í 3. sæti er skáldsagan Hreinsun eftir Sofi Oksanen og kemur hún aftur inn á topplistann eftir einnar viku fjarveru.

Í 4. sæti kemur ný inn bók Bergsveins Birgissonar, Svar við bréfi Helgu. Í 5. sæti er svo Sigurðar saga fóts eftir Bjarna Harðarson en hún var í 2. sæti í síðustu viku.

Listinn er byggður á sölu í Sunnlenska bókakaffinu 24.-30. nóvember.