Styrktartónleikar í Skálholtskirkju í kvöld

Kammerkór Suðurlands heldur styrktartónleika í Skálholtskirkju í kvöld, miðvikudagskvöld kl. 20:30, til að safna í ferðasjóð.

Kórinn mun taka þátt í Listahátíðinni í Salisbury og alþjóðlega kóramótinu í Umeå nú í júní.

Uppistaðan í efnisskránni verða verk eftir Sir John Tavener, Jack White, Pál á Húsafelli og ung íslensk tónskáld sem flutt voru á tónleikum kórsins á Listahátíð í Reykjavík sl. laugardag. Að auki má þar heyra eitt stærsta sellóverk Taveners, Svyati, þar sem Kristín Lárusdóttir leikur einleik með kórnum, en það er einnig á efnisskrá tónleika kórsins á Salisburyhátíðinni í byrjun júní.

Einsöngvararnir sem sungu á tónleikunum á Listahátíð verða einnig með í Skálholti, þar með talin hin heimsþekkta indverska sópransöngkona Patricia Rozario sem dáleiddi gesti á tónleikum kórsins á Listahátíð á laugardaginn. Hún heillaðist mjög af flutningi Kammerkórs Suðurlands á verkum Taveners á tónleikum í London síðastliðið haust – og hún var reyndar ekki sú eina sem heillaðist, því í kjölfarið fékk kórinn tilboð um að syngja á alþjóðlegum listahátíðum, meðal annars í Salisbury og Umeå.

Rozario bauðst til þess að koma til Íslands til að taka þátt í tónleikunum á Listahátíð og nú einnig í Skálholtskirkju til að leggja sitt af mörkum þannig að kórinn gæti fylgt eftir þessum boðum á alþjóðlegar hátíðir. Þau boð eru vitanlega mikill heiður fyrir kórinn – en jafnframt kostnaðarsöm, og því er boðað til styrktartónleika. Þá leggja listamennirnir Kristín Gunnlaugsdóttir og Páll á Húsafelli kórnum lið með því að gefa listaverk sín sem velunnurum kórsins gefst kostur á að kaupa.

Samhliða tónleikahaldi heima jafnt sem heiman á næstu vikum og mánuðum undirbýr kórinn nú næsta stóra verkefni, þar sem fyrrnefnd Patricia Rozario kemur einnig við sögu. Um er að ræða frumflutning á einni af stærstu tónsmíðum Sir Johns Tavener, Flood of Beauty, en tónskáldið hafði skömmu fyrir andlát sitt óskað sérstaklega eftir því að Hilmar Örn og Kammerkór Suðurlands myndu frumflytja verkið.

Þetta er stórt verkefni; fyrir fjóra kóra, sinfóníuhljómsveit, indverska raga-hljómsveit og tvo einsöngvara – og hefur Patricia Rozario tekið að sér annað þeirra. Caput og Guðni Franzson koma einnig að verkefninu.

Forsala aðgöngumiða er hjá Ósk í síma 898 7986 og einnig má senda póst á netfangið henriettaosk@gmail.com. Auk þess verður miðasala við innganginn í Skálholti.