Styrktarsýning á Grís Horror í kvöld

Nemendafélag Fjölbrautaskóla Suðurlands hefur ákveðið að bæta við einni sýningu af hinni frábæru uppfærslu á Grís Horror, kl. 20 í kvöld í Gónhól. Ágóðinn af sýningunni rennur til Aldamótaþorpsins í Gónhól.

„Nemendafélagið fékk Gónhól lánaðan endurgjaldslaust undir sýninguna og nú ætla þau að endurgreiða okkur greiðann og sýna eina styrktarsýningu. Við kaupum efni fyrir alla innkomuna og byrjum að smíða þorpið,“ sagði Anna Árnadóttir, húsfreyja í Gónhól, í samtali við sunnlenska.is.

Anna ætlar að bjóða upp á rússneska kartöflusúpu og heimabakað brauð frá klukkan 18. Það verður rússneskt þema því eins og allir vita gerist leikritið í rússneskum fjöldamorðingjaskóla.

Fyrri greinA-listinn í Ölfusi tilbúinn
Næsta greinMikið öskufall í Álftaveri