Stuðlabandið gerir allt vitlaust í Brasilíu

Stuðlabandið á sviðinu á Kótelettunni á dögunum. Fannar Freyr er fremstur á myndinni.

Eins og sunnlenska.is greindi frá á dögunum gerði Stuðlabandið allt vitlaust á Kótelettunni þegar þeir töldu í „Söngvaborgarlagið“ Í larí lei.

Flutningur Stuðlabandsins hefur nú ratað til Brasilíu í gegnum YouTube og samfélagsmiðla hljómsveitarinnar en Í larí lei er upprunalega með brasilísku stórstjörnunni Xuxa og nefnist Ilariê. Sigga Beinteins tók lagið upp á sína arma með texta Ómars Ragnarssonar og kom það út á plötunni Flikk-flakk árið 1998.

Fannar Freyr Magnússon, gítarleikari Stuðlabandsins, segir að síðustu daga hafi hljómsveitin farið að sjá óvenju mikið af like-um, kommentum og deilingum á samfélagsmiðlum hljómsveitarinnar frá fólki í Brasilíu, Portúgal og fleiri löndum… „Og svo á miðvikudaginn sprakk videoið bókstaflega…“ segir Fannar Freyr.

Xuxa hafði nefnilega deilt myndbandi Stuðlabandsins á Instagramsíðu sinni og það segir sig sjálft að þegar einn frægasti skemmtikraftur Brasilíu, með meira en 12,3 milljón fylgjendur á Instagram, gerir slíkt þá hefur það áhrif… Í gærkvöldi var myndband Stuðlabandsins búið að frá 275 þúsund áhorf, 17 þúsund læk og 1.200 komment.

Síminn batteríslaus útaf tilkynningum
„Það var spænsk tónlistarstöð sem setti myndbandið inná Twitter hjá sér á miðvikudaginn og það er komið með yfir 215.000 áhorf og 1.500 retweet. Instagrammið okkar er að springa… síminn minn er búinn að verða batteríslaus útaf tilkynningum, við erum að fá 20-25 tilkynningar á fimm mínútna fresti og svo eru brasilískir fjölmiðlar byrjaðir að pikka þetta upp og það er verið að senda okkur skilaboð allstaðar frá Suður-Ameríku og verið að biðja um komment, viðtöl og einhverjir aðdáendur Xuxa vilja fá okkur til Brasilíu til að spila. Frægur sjónvarpsmaður þaðan birti myndband af sér í gærmorgun að drekka morgunkaffið og dansa við videoið okkar,“ segir Fannar og hlær.

„Þetta er stórmerkilegt. Íslensk útgáfa af brasilísku barnalagi sem kom út árið 1998, tekið á íslenskri útihátíð á Selfossi 24 árum eftir að lagið kom út… og er að verða viral í Brasilíu! Miðað við þessi svakalegu viðbrögð þá verður myndbandið sennilega komið í 2,5 milljónir spilana núna á föstudagsmorgun,“ bætir Fannar við.

Það óvæntasta sem við höfum lent í
Stuðlabandið er vinsælasta ballhljómsveit Íslands um þessar mundir og nú er spurningin hvort þeir stefni næst á Suður-Ameríkumarkað?

„Brasilískir útvarpsmenn hafa viðrað þá hugmynd að fá Stuðlabandið á tónlistarhátíðina Rock In Rio sem er haldin àr hvert í Rio De Janeiro. Þannig að hver veit? Stuðlabandið á Rock In Rio 2023?,“ segir Fannar léttur. „Þetta er bara eitt það skemmtilegasta en jafnframt það óvæntasta sem við höfum lent í. Við vissum að þetta væri gamalt, vinsælt brasilískt barnalag en við gerðum okkur engan veginn grein fyrir því hversu raunverulega vinsælt lagið er þarna úti og hversu sterk tengsl heimamenn hafa við lagið.“

Sigga á heiðurinn af þessu
Strákarnir í Stuðlabandinu vilja þó helst þakka Siggu Beinteins fyrir þessa óvæntu frægð utan landsteinanna.

„Já, við viljum senda innilegar þakkarkveðjur til Siggu og Stjórnarinnar. Það er hún sem á heiðurinn af því að hafa fært okkur Íslendingum lagið sjálft á sínum tíma. Án hennar hefðum við hljómsveitin aldrei uppgvötað þetta frábæra lag. Stjórnin hefur verið dugleg að spila lagið og auka á vinsældir þess í gegnum árin og við vildum taka þátt í því og settum þessvegna lagið á prógrammið okkar,“ segir Fannar Freyr að lokum.

Fyrri greinHátt í 100 manns koma fram á stórtónleikum Hamingjunnar við hafið
Næsta greinNý hlaupaleið í Brúarhlaupinu