Stórkostlegt stórslys í Listasafninu

Yara Zein. Ljósmynd/Guðmundur Óli Pálmason

Föstudaginn 29. júlí mun Listasafn Árnesinga opna pop-up sýningu með verkum Yara Zein, sem sýnir í fyrsta sinn verk sín á Íslandi. Sýningin hefur heitið Catastrophe Merveilleuse og stendur yfir um verslunarmannahelgina.

Yara Zein er búsett á Íslandi, nánar tiltekið í Árnessýslu, en er fædd og uppalin í Líbanon og tilheyrir kynslóð sem ólst upp eftir borgarastríðið sem geisaði í landinu í hálfan annan áratug. Hún lauk BA gráðu í arkitektúr og myndlist við Académie Lebanaise des Beaux Arts í Beirút, Líbanon og meistaragráðu í Fine Arts myndlist við Nottingham Trent University í Nottingham, Englandi. Í vídeóverkum sínum fjallar Yara um sameiginlegt minnisleysi og gleði líbönsku þjóðarinnar í mjög svo flóknu samfélagspólítísku umhverfi.

Yara segir að það að hafa verið í hringiðju þeirra hörmunga sem á landi hennar dundu og að hafa staðið andspænis þeim erfiðleikum sem því fylgdi hafi skapað hjá henni hvöt til að finna meiningu og tilgang, til að velta upp samfélagslegum og pólítískum spurningum á erfiðum tímum, á meðan Líbanon gengur í gegnum, sem afleyðingu af spillingu stjórnvalda, eina verstu efnahagskrýsu sem sést hefur. Til að bæta gráu ofan á svart jafnaðist stór partur Beirút við jörðu í sprengingu þann fjórða ágúst 2020, en sprengingin var þriðja stærsta sprenging sögunnar í þéttbýli, eftir Hirosima og Nagasaki, en þá sprungu 2.750 tonn af ammóníumnítrati sem höfðu verið vanrækt og geymd við óviðunandi aðstæður á hafnarsvæðinu í Beirút með þeim afleiðingum að 204 létu lífið, um hálft níunda þúsund manns særðust og þrjúhundruð þúsund manns misstu heimili sín.

„Með því að nota vídeó í verkum mínum velti ég þessum atburðum fyrir mér og sambandinu á milli okkar, borgarinnar og arkitektúrsins, tilfinningu okkar fyrir tímanum á milli sólseturs og sólsrupprásar og mótsagnirnar í því að finna gleði á tímum og stöðum þar sem maður býst ekki við að finna hana,“ segir Yara.

Sýningin opnar með fyrirlestri Yara Zein um verk sín á ensku kl. 12:00, föstudaginn 29. júlí. Aðgangur er ókeypis og öll eru velkomin.

Sýningin verður opin um verslunarmannahelgina, frá 29. júlí til 1. ágúst 12:00 – 17:00.

Fyrri greinUppsveitir í úrslitakeppnina
Næsta greinMikið álag á Heilbrigðisstofnun Suðurlands