„Stoltur, auðmjúkur og gríðarlega spenntur“

Magnús Kjartan Eyjólfsson. Ljósmynd/dalurinn.is

Magnús Kjartan Eyjólfsson, forsöngvari og gítarleikari Stuðlabandsins frá Selfossi, mun stýra brekkusöngnum í Herjólfsdal sunnudagskvöldið 1. ágúst.

Þetta var tilkynnt á heimasíðu Þjóðhátíðarinnar í morgun.

„Ég er stoltur, auðmjúkur og gríðarlega spenntur,“ sagði Magnús Kjartan í samtali við sunnlenska.is. Hann er vanur því að stýra fjöldasöng sem þessum, meðal annars hefur hann stýrt sléttusöngnum á Sumar á Selfossi undanfarin ár, þar sem yfir tíuþúsund sléttusöngvarar koma saman.

„Já, nú er bara að setja saman gott prógramm fyrir Dalinn. Ég mun skoða hvað ég og aðrir höfum verið að gera og búa til einhverja góða blöndu fyrir þetta frábæra kvöld,“ sagði Magnús Kjartan ennfremur.

Magnús hefur um árabil verið einstaklega eftirsóttur trúbador samhliða því að spila með hljómsveit sinni vítt og breitt um landið við hin ýmsu tilefni en Stuðlabandið hefur meðal annars komið fram á Þjóðhátíð óslitið síðan 2016.

Þjóðhátíð mun bjóða upp á lifandi streymi í samvinnu við Sena live frá brekkusöngnum í fyrsta skipti og geta landsmenn því upplifað Brekkusönginn heima í stofu í gegnum netið eða myndlykla Vodafone og Símans.

Fyrri greinSkipulagið til fyrirmyndar
Næsta greinKýldi í gegnum rúðu og baðst afsökunar