Stólarnir hafa flogið upp að vegg

Skítamórall fyrir utan Sviðið í miðbæ Selfoss. (F.v.) Gunnar Ólason, Arngrímur Fannar Haraldsson, Jóhann Bachmann Ólafsson, Gunnar Þór Jónsson og Herbert Viðarsson. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Annað árið í röð ætlar hljómsveitin Skítamórall að starta sumrinu á Selfossi með tónleikum þrjú kvöld í röð um hvítasunnuhelgina á tónleikastaðnum Sviðinu.

„Við gerðum þetta í fyrsta skipti í fyrra, tókum þriggja daga vakt, þrjú kvöld og það heppnaðist svona gríðarlega vel. Það var uppselt öll kvöldin og skorað á okkur að gera þetta aftur – og hingað erum við mættir,“ segir Addi Fannar, þar sem sunnlenska.is settist niður með hljómsveitinni fyrir æfingu á Sviðinu í gærkvöldi.

„Það er vonandi að þetta verði árlegt héðan í frá,“ bætir Hanni við. „Það kom okkur svo mikið á óvart hvað þetta var hrikalega skemmtilegt í fyrra. Móttökurnar voru frábærar og það komust færri að en vildu, þannig að við mælum endilega með því að fólk kaupi sér miða í forsölu á svidid.is.“ Nú þegar er uppselt á laugardagskvöld en lausir miðar á föstudag og sunnudag.

Skítamórall á sviðinu á Sviðinu. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Hanni segir að hljómsveitin sé í fínu formi enda hafa þeir spilað reglulega í vetur. „Við vorum með tónleika í Bæjarbíó í Hafnarfirði og í Hlégarði í Mosó og svo tókum við eina rosalega góða tónleika með Lúðrasveit Þorlákshafnar í apríl. Það var dálítið öðruvísi verkefni en mjög skemmtilegt, þannig að við erum alveg í góðum spilagír og gleðin er við völd. Enda er alltaf gaman þegar við æskuvinirnir hittumst.“

Leyfum tónlistinni að ráða
Sem fyrr segir var uppselt og rúmlega það á tónleikunum á Sviðinu í fyrra og Addi segir að það sé alltaf gaman að spila í heimabænum og sérstaklega á þessum frábæra nýja tónleikastað í miðbænum.

„Á nánast öllum okkar tónleikum sjáum við andlit sem hafa fylgt okkur í gegnum tíðina, við eigum okkar hóp. Það er samt alltaf sérstaklega gaman að spila á Selfossi og sjá mörg kunnugleg andlit. En það er alltaf nýtt fólk líka, Selfoss er að stækka svo mikið og fólk er duglegt að koma úr sumarbústöðunum til þess að skemmta sér í nýja miðbænum,“ segir Addi og bætir við að stemningin á Sviðinu sé sérstaklega góð.

„Tónleikagestir sitja við borð en það hefur nú gerst oftar en ekki þegar líður á kvöldið að stólarnir hafa flogið upp að vegg og borðin jafnvel líka. Það var frábær stemning hérna í fyrra og ég reikna með að það verði eins um helgina,“ segir Addi og Gunni grípur fram í þegar spurt er út í prógrammið.

„Þetta verður skemmtilegt kvöld, öll okkar bestu lög og við ætlum aðallega bara að spila músík. Við erum svosem ekkert þekktir fyrir að vera eitthvað sérstaklega málglaðir, við leyfum tónlistinni að ráða en jújú, það getur vel verið að einhverjar sögur fái að fljúga.“

Strákarnir hafa spilað reglulega í vetur og er í fínu formi þannig að tónleikagestir eiga von á góðu. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Hlustuðu á furðulegar, diskóskotnar safnplötur
Árið 2024 er risa afmælisár hjá hljómsveitinni en Skítamórall verður 35 ára á árinu, fjórða breiðskífa þeirra Skítamórall er 25 ára gömul, það eru 15 ár síðan gítarleikarinn Gunnar Þór Jónsson gekk til liðs við sveitina og sjálf Skímó-syrpan fagnar 30 ára afmæli. En á ekki að halda upp á þetta? „Nei,“ segir Addi og hlær.

Það er þó næsta víst að það verði talið í Syrpuna þrisvar sinnum um helgina og Hanni skýtur því inní að hún sé elsta lagið sem enn sé á prógrammi hljómsveitarinnar.

„Við settum hana saman árið 1994 í bílskúrnum heima hjá pabba í Grashaganum. Mig minnir að Hebbi hafi komið með hugmyndina um að setja saman fullt af viðlögum. Þetta er viðlagasyrpa,“ segir Hanni glettinn og Addi bætir við: „Við vorum alltaf að hlusta á einhverjar furðulegar, diskóskotnar safnplötur sem voru til í safni foreldra okkar. Okkur fannst þetta bara fyndið og þetta var bara grín í byrjun. Hún var svo tekin upp læf á Gauknum og kom út á plötunni Tjútt árið 1997 og hefur fylgt okkur alla tíð síðan og er orðin ómissandi á prógramminu.“

Fyrri greinStokkseyringar fengu skell
Næsta greinMiðfellshlaupið er fyrir alla