Stóð ég við Öxará

Graduale Nobili mun fagna aldarafmæli fullveldisins með því að halda útitónleika á Þingvöllum á þjóðhátíðardegi Íslendinga, 17. júní klukkan 15:00.

Þar verða sígild ættjarðarlög í forgrunni í bland við aðrar íslenskar tónsmíðar.

Kórinn vill bjóða öllum aldurshópum, ungum sem öldnum, að koma og hlýða á söng þeirra og heiðra minningu fullveldis Íslands og arf þjóðskáldanna. Aðgangur er ókeypis.

Í tilkynningu frá kórnum segir að þetta sé kjörið tækifæri fyrir alla þá sem vilja sleppa úr mannþvögu miðbæjarins og njóta kyrrðarinnar á Þingvöllum.

Fólk er minnt á að klæða sig eftir veðri þar sem tónleikarnir verða haldnir utandyra.

Hér má nálgast nákvæma staðsetningu á korti.