Stígvélaði kötturinn á ferðinni í sumar

Leikhópurinn Lotta frumsýnir á laugardaginn glænýtt íslenskt leikrit um Stígvélaða köttinn. Hópurinn mun ferðast um landið með leikritið í allt sumar.

Þetta er sjötta sumarið sem Leikhópurinn Lotta setur upp útisýningu en í fyrrasumar sýndi hópurinn Mjallhvíti og dvergana sjö. Frumsýningin fer fram í Elliðaárdalnum í Reykjavík en í framhaldinu mun hópurinn ferðast með sýninguna og heimsækja yfir fimmtíu staði víðsvegar um landið.

Leikgerðina um Stígvélaða köttinn gerði Anna Bergljót Thorarensen. Þetta er annað leikritið sem hún skrifar fyrir hópinn en hún hefur verið meðlimur í Leikhópnum Lottu frá stofnun hans árið 2006. Ný tónlist hefur einnig verið samin fyrir verkið og tóku bræðurnir Baldur og Snæbjörn Ragnarssynir að sér það hlutverk.

Stígvélaða köttinn þekkja flestir en auk hans eru ævintýrin um Nýju fötin keisarans og Birnina þrjá fléttuð inn í söguþráðinn. Alls eru sex leikarar í sýningunni sem skipta á milli sín þrettán hlutverkum. Þá er flutt lifandi tónlist, söngur og dans og því nóg um að vera.

Meðal viðkomustaða Lottu í sumar eru Hella, Hvolsvöllur, Vík, Klaustur og Flúðir en einnig verða sýningar á Unglingalandsmóti UMFÍ á Selfossi og á Blómstrandi dögum í Hveragerði.

Nánari upplýsingar um sýninguna má finna á www.leikhopurinnlotta.is