Steinunn Sigurðardóttir í Hveragerði

Í kvöld kl. 20 mun Steinunn Sigurðardóttir heimsækja Bókasafnið í Hveragerði og m.a. lesa úr nýútkominni bók sinni, Fyrir Lísu.

Dagskráin hefst kl. 20 með því starfsfólk safnsins kynnir nokkrar nýjar bækur, en síðan les Steinunn úr nýútkominni bók sinni Fyrir Lísu sem er sjálfstætt framhald af bókinni Jójó sem kom út fyrir síðustu jól. Lísa var ein af persónum Jójó, stúlka sem læknirinn Martin Montag kynntist þegar hann var læknanemi á geðdeild. Hann ákveður að leita hana uppi, en þá fer af stað atburðarás sem hann missir stjórn á.

Steinunn er Sunnlendingum vel kunn, enda bjó hún á Selfossi um tíma. Hún lauk BA prófi í sálarfræði og heimspeki frá University College í Dublin 1972. Hún hefur sent frá sér fjölda ljóðabóka og skáldsagna. Fyrsta ljóðabókin kom út 1969 og vakti strax athygli. Steinunn fékk Íslensku bókmenntaverðulaunin 1995 fyrir skáldsöguna Hjartastað. Nokkrar bækur hennar hafa verið þýddar á önnur tungumál.

Steinunn hefur starfað sem blaðamaður og þáttagerðarmaður við útvarp og sjónvarp og hefur dvalist um lengri og skemmri tíma í ýmsum löndum og er nú búsett í Berlín.

Í lok dagskrár verður boðið upp á kaffi og spjall við Steinunni.

Fyrri greinBryndís í fimmta sæti í Sterkasta kona heims
Næsta greinDekurdagur á Kirkjuhvoli