Spunavélin á Stokkseyri

Siggi og Ingibjörg. Ljósmynd/Aðsend

Tónlistarvinnusmiðjan Spunavélin verður haldin dagana 23.- 24. október 2021 á Stokkseyri og er opin öllum krökkum á aldrinum 8-12 ára.

Spunavélin er yfirheiti skemmtilegra og lifandi tónlistarvinnusmiðja sem Sigurður Ingi og Ingibjörg Fríða hafa haldið og stýrt reglulega síðustu ár. Í Spunavélinni fara þátttakendur í skemmtilega tónlistarleiki, prófa sig áfram á hljóðfæri og semja tónlist saman. Spunavélin er alls ekki föst í skorðum heldur er hægt að aðlaga hana og breyta eftir ólíkum aðstæðum og er umhverfið og sögur þess oft stór partur af tónlistinni sem samin er í smiðjunni.

Siggi og Ingibjörg eru reyndir tónlistarmenn og leiðbeinendur í skapandi vinnusmiðjum. Þau eru hugmyndasmiðir og leiðbeinendur í Spunavélinni en hún hefur verið haldin víðsvegar um landið síðustu fimm ár, meðal annars á Listahátíð í Reykjavík, Þjóðlagahátíð á Siglufirði, á Sönghátíð í Hafnarborg, í Tónskóla Sigursveins og víðar.

Siggi er trommuleikari í rokkhljómsveitinni VAR en hún æfir í Orgelsmiðju Björgvins Tómassonar á Stokkseyri. Lokatónleikar Spunavélarinnar verða því haldnir ásamt hljómsveitinni í orgelsmiðjunni þar sem strákarnir í VAR spila með krökkunum tónlistina sem verður til í Spunavélinni!

Spunavélin er styrkt af SASS, Uppbyggingarsjóði Suðurlands, og því er aðgangseyrir ókeypis en nauðsynlegt að taka frá pláss þar sem þau eru takmörkuð. Smiðjan fer fram í húsnæði Barnaskóla Stokkseyrar og Eyrarbakka.

Allar nánari upplýsingar, dagskrá, tímaplan og staðsetning námskeiðis má finna hér fyrir neðan:

Viðburður á Facebook
Hlekkur á skráningarform

Fyrri greinAuðveldur sigur í fyrsta heimaleik
Næsta greinHeimir býður sig fram til formennsku