Sprellfjörugt tónleikhús fyrir alla fjölskylduna

Ásta Sigríður Arnardóttir, og Jón Svavar Jósefsson. Ljósmynd/Gunnlöð Jóna

Laugardaginn 29. október kl. 13 verður frumsýnt í Kaldalóni í Hörpu verkið Skemmtilegt er myrkrið eftir Elínu Gunnlaugsdóttur, tónskáld á Selfossi. Verkið er sprellfjörugt tónleikhús fyrir alla fjölskylduna og í uppsetningunni er teflt saman tónlist, leik og dansi en verkið er unnið í samstarfi við Listdansskóla Íslands.

Verkið fjallar um Ása Signýju sem er nokkuð vantrúuð á yfirnáttúrulega hluti og einn daginn kemur hún hlaupandi heim til Jóns Árna frænda síns og segist hafa séð loftanda. Jón Árni telur að þetta hafi verið draugur en Ása Signý er sannfærð um að svo sé ekki. Fljótlega fara þó ýmsir skrítnir hlutir að gerast í kringum þau og hinar ýmsu verur að birtast. Þetta skýtur nokkuð skökku við hennar eigin sannfæringu um lífið og tilveruna. Hverju á Ása Signý að trúa?

Í verkinu er unnið með íslenskar þjóðsögur og á sviðinu lifna við draugar, huldufólk, nykur auk loftandans sem áður hefur verið getið um. Titill verkins er sóttur í þjóðsögu um galdrakarl sem segir þessa fleygu setningu: Skemmtilegt er myrkrið.

Þáttakendurnir í verkinu. Ljósmynd/Gunnlöð Jóna

Tónlistin er viðamikil og heyra má leikið á nokkur óvenjuleg hljóðfæri eins og langspil, dótapíanó, sleifar, potta og skeiðar. Textar sönglaganna eru gamlar vísur og ljóð en texti lokalagsins er eftir Þórarin Eldjárn og sérstaklega saminn fyrir þetta verk.

Þáttakendur í verkinu eru Ásta Sigríður Arnardóttir, sópran, Jón Svavar Jósefsson, bariton, Matthildur Anna Gísladóttir, píanó og dótapíanó, Sigurður Halldórsson, selló og langspil og Frank Aarnink, slagverk. Danhöfundur er Asako Ichiashi og um leikmynd og búninga sér Eva Bjarnadóttir.

Leikstjóri verksins Bergdís Júlía Jóhannesdóttir hefur áður leikstýrt leikverkinu Carroll: Berserkur eftir leikhópinn Spindrift Theatre, einleikjunum Lohivaimo og Ómerkileg saga ásamt fjölda söngleikja með unglingahópum og áhugaleikhúsum.

Elín Gunnlaugsdóttir. Ljósmynd/Gunnlöð Jóna

Höfundur verksins er sem fyrr segir Elín Gunnlaugsdóttir og er Skemmtilegt er myrkrið fimmta verkið sem hún skrifar sérstaklega fyrir börn. Önnur barnaverk hennar sem öll hafa hlotið góða dóma eru: barnaballettinn Englajól (2012), tónleikhúsverkið Björt í sumarhúsi (2014), Drekinn innra með mér fyrir sögumann og Sinfóníuhljómsveit Íslands (2018) og leikhúsverkið Nú get ég (2018) samið í tilefni af 100 ára fullveldisafmæli Íslands.

Verkið Skemmtilegt er myrkrið var upphaflega pantað af Töfrahurð og kemur út á bók og diski hjá tónlistarútgáfu Töfrahurðar snemma á næsta ári. Sýningin er hluti af Óperudögum 2022 og var hún styrkt af Sviðslistasjóði og Launasjóði sviðslistafólks (2022).

Fyrri greinHlakkar til að kynna „Skannað og skundað“ fyrir viðskiptavinunum
Næsta greinHeimakonur sterkari í Hólminum