Spjallað um Nútímakonur

Í dag, sunnudaginn 30. mars kl. 15, er boðið upp á sýningarspjall og gleði í Listasafni Árnesinga í Hveragerði.

Hrafnhildur Schram sýningarstjóri og listamennirnir Björg Þorsteinsdóttir, Ragnheiður Jónsdóttir og Þorbjörg Höskuldsdóttir fara með gestum um sýninguna Nútímakonur.

Þær munu ræða um sýninguna, ferilinn og tíðaranda. Verkin á sýningunni eru olíu og akríl málverk, grafík og kolateikningar. Þau eru ýmist frá áttunda áratugnum eða nýleg verk sem endurspegla starfsferil þeirra og virkni en allar reka þær enn eigin vinnustofur. Heiti sýningarinnar vísar þannig bæði í það sem þær eru að gera núna en einnig til áttunda áratugarins þegar konur og þar á meðal þær þrjár létu til sín taka og sýndu að nú væri tíminn þeirra.

Mótunarár þeirra Bjargar, Ragnheiðar og Þorbjargar voru árin eftir heimsstyrjöldina síðari, þegar íslenskt þjóðfélag hafði tekið grundvallarbreytingum og breyttist hratt úr hefðbundnu norrænu bændasamfélagi í nútímavætt borgarsamfélag og við blasti ný heimsmynd. Árin eftir stríð urðu því uppgangstímar og alþjóðlegir straumar í bókmenntun, myndlist og fatatísku bárust hratt til landsins og settu sterkan svip á þjóðfélag og menningarlíf. Í þessari þróun öðluðust konur stöðugt aukið frelsi, pólitískt, menntunarlega, fjárhags- og kynferðislega og til varð hin nýja kvennahreyfing sem nefnd hefur verið önnur bylgja femínisma. Hver er svo staðan í dag?

Sýningin Nútímakonur mun standa til 11. maí. Listasafn Árnesinga er opið fimmtudaga til sunnudaga kl. 12 – 18 og alla dagana í maí. Aðgangur ókeypis og allir velkomnir.